143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst af öllu, ef þetta er eins og hv. þingmaður gefur sér og hefur í sjálfu sér ekkert fyrir sér í þeirri greiningu, að þetta séu allt gengistryggð lán en ekki verðtryggð, (Gripið fram í: Ég bara veit það ekki.) þá segi ég bara á móti: Hvað mælir þá gegn því að undanþiggja auðmenn réttinum? Er þá ekki einfaldast að samþykkja breytingartillögu mína? Er það ekki skynsamlegasta leiðin ef við erum sammála um að það sé óæskilegt að auðmenn fái almannafé til þess að greiða niður skuldir sínar?

Síðan verður hv. þingmaður að láta líka af þeim vana sínum að vera stöðugt að bera saman ósambærilega hluti. Það þýðir ekki að vitna í hvaða efnahagslegu áhrif eða réttlætisáhrif dómar um gengislán höfðu. Þeir dómar féllu af dómstólum. Það er bara ekki við dómstóla að þræta um það. Dómstólar dæma eftir lögum og við getum engu ráðið um það. Það er ekki hægt að hafa einhver efnahagsleg rök fyrir því. Þar fyrir utan eru það kröfuhafar bankanna sem bera þann kostnað en ekki almenningur í landinu, ekki ríkissjóður.

Hv. þingmaður vitnar líka í 110%-leiðina. Enn og aftur: Það voru ekki skattborgarar sem báru kostnað af lækkun skulda þar. Áðan bar líka einn af fulltrúum stjórnarmeirihlutans þetta saman við fyrirtækin og sagði að núna væri komið að heimilunum. Enn og aftur: Lækkun fyrirtækjalána hefur ekki verið á kostnað skattborgara. Hún er á kostnað kröfuhafa bankanna, að langmestu leyti erlendra kröfuhafa.

Menn verða að fara að vera heiðarlegir í málflutningi. Það þýðir ekki að bera stöðugt saman fullkomlega ósambærilega hluti. Hér tala menn um að beita pólitísku valdi til þess að leggja á skatta og útdeila þeim. Það er sú aðgerð sem verður að dæmast á þeim forsendum og engum öðrum því að skattlagningarvaldið og útdeilingarvaldið er hjá ríkisvaldinu. Réttlætið verður að vera hreint og klárt í þessari aðgerð og dugar ekki að benda á aðrar aðgerðir eða (Forseti hringir.) einhverjar neikvæðar afleiðingar annarra atburða í samfélaginu. (Forseti hringir.)