143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:37]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að segja að ég hef heyrt margar lýðskrumsræður fluttar hér í stól en ég held að sá sem talaði síðast hafi slegið mörg met. Ég hlífði hv. þm. Ögmundi Jónassyni við að koma í andsvör út af ýmsu sem þar var sagt og ýmsum rangfærslum sem þar var farið með. En nú ætla ég að snúa mér að efni þessa frumvarps.

Ég ætla í upphafi máls míns að lýsa andstöðu minni við efni frumvarpsins og ég ætla einnig að taka fram hér í upphafi að ég tek undir allt sem segir í nefndaráliti 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, í áliti hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ástæða þess að ég er ósáttur við þetta frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána er sú að það er skortur á jafnræði meðal þegnanna sem skín í og gengur í gegnum þetta frumvarp. Það er óréttlátt og það vegur að stöðugleika.

Ég ætla að byrja á fyrirsögn frumvarpsins, frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Það er nú þannig að orðið „leiðrétting“ kemur fyrir 89 sinnum í meginmáli frumvarpsins en skilgreining á því hvað verið er að leiðrétta kemur aldrei fram. Skekkjan kemur aldrei fram þannig að það er einhver grundvallarmisskilningur í gangi í þessu frumvarpi.

Árið 2008 varð hrun á fjármálamarkaði. Allar meginfjármálastofnanir féllu og allir urðu fyrir tjóni. Það hefur aldrei verið lýst eftir öllum tjónaþegum á þessum tíma. Ég veit þó að þeir sem urðu fyrir altjóni og munu aldrei fá tjón sitt bætt eru til að mynda hlutabréfaeigendur. Þeir einstaklingar sem áttu minna en 50 millj. kr. í sparifé í hlutabréfum töpuðu 80 milljörðum; kann að vera ofmetið en 50–80 milljarðar er það alltént. Eigendur hlutabréfa verðtryggðra sjóða töpuðu nokkru og engum hefur dottið í hug að bæta þeim það tjón. Lífeyrissjóðir töpuðu sennilega 300–400 milljörðum og urðu að skerða réttindi sjóðfélaga um það bil 5%. Þeirra tjón, launþega í þessu landi, verður aldrei bætt og engum dettur í hug að sækjast eftir því.

Íbúðalántakendur urðu fyrir tjóni á þann hátt að skuldir þeirra hækkuðu en það gerðist ýmislegt á móti vegna þess að þeir áttu eign á móti sem var fasteign og þær hækkuðu í verði á ákveðnum tíma, og ég kem að því síðar. Þeir sem voru með svokölluð lögleg erlend lán, þeirra tjón er nokkuð því að gengi krónunnar féll. Síðast en ekki síst var það ríkissjóður og æska þessa lands situr uppi með skuldir ríkissjóðs. Í þessu frumvarpi sitja þeir eftir sem eru með verðtryggð námslán, verðtrygging fjárskuldbindinga náði til þeirra. Ég vísa enn og aftur til þeirra sem voru með erlend lögleg lán, ekki er tekið á vanda þeirra hér. Það er ýmis leiguúrræði, húsnæðissamvinnufélög og leiguúrræði sveitarfélaga og fatlaðra, með verðtryggð lán og leiga þeirra tekur beint mið af lánskjaravísitölu eða vísitölu neysluverðs sem er notuð til verðtryggingar fjárskuldbindinga. Svo eru allmargir sem misstu starf sitt og fluttu af landi brott og þar varð forsendubrestur.

Þetta hugtak „forsendubrestur“ er mjög loðið og teygjanlegt. Það sem hér á að reyna að laga í frumvarpinu er almenn leiðrétting en þegar spurt er um almenna leiðréttingu þá er hún ekki altæk. Hún er almenn en ekki altæk. Þetta nær að vísu til allmargra heimila. Í 7. gr. segir:

„Heildarsamtala útreiknaðrar leiðréttingar einstaklings, hjóna, sambýlisfólks sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar og tveggja eða fleiri einstaklinga sem áttu í sameign heimili getur þó að hámarki orðið 4 millj. kr.“

Hér er enn og aftur komið að því ákvæði sem er í öðru samhliða frumvarpi um ráðstöfun viðbótarlífeyris. Tveir einstaklingar sem ganga í hjónaband, samsköttun, þarna missa þeir 50% af réttindum sínum, ekki 25% eins og í því tilviki. Hér skín því í gegn eitt óréttlætið í þessari viðleitni. Detta mér oft í hug orð Jóns vinar míns Hreggviðssonar: Vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti.

Ég vísa til þess að hér varð hrun á fjármálamarkaði. Í því hruni breyttist ýmislegt. Það urðu hér breytingar á almennu verðlagi. Það urðu hér breytingar á launum og breytingar á fasteignaverði. Ef við horfum nú til baka allar götur aftur til 1990 hefur kaupmáttur launa, samkvæmt launa- og neysluverðsvísitölu, aukist um 36,13% eða 1,29% á ári. Ef við förum aftur til 2006 hefur kaupmáttarbreyting orðið 0,63% ári eða 4,5%. Síðan hefur kaupmáttur minnkað frá 2007 og 2008, enda er ekki alltaf 2007, um rétt rúm 5% fyrir hvert ár fyrir sig en eftir það hefur kaupmáttur launa vaxið. Ef við tökum kaupmáttarhlutann, þ.e. laun, verðlag, þá virðist ekki hafa orðið forsendubrestur. Allt tal um að það hefði átt að aftengja neysluverðsvísitölu eða að það hafi verið óréttlátt að laun fylgdu ekki neysluverðsvísitölu; en það er fyllilega réttlátt vegna þess að launin hafa hækkað meira og ég vona að fólk fari að skilja það.

Þá er komið að því sem vísað er til í minnihlutaáliti hv. þm. Péturs H. Blöndals, þ.e. að þeir sem keyptu fasteignir á árunum 1994–2003 hafa ekki orðið fyrir neinum forsendubresti vegna þess að fasteignir þeirra hafa hækkað meira en almennt verðlag. Þeir sem keyptu á árabilinu 2005–2009, lán þeirra hafa hækkað meira en fasteign þeirra og á það sérstaklega við árin 2005, 2006, 2007 og 2008. Þetta frumvarp tekur ekki á þeim sértæka vanda sem hér er um ræða, þ.e. að þeir sem keyptu sína fyrstu fasteign á þessum tíma 2005–2008 hafa mjög sennilega fengið aðstoð í gegnum 110%-leiðina svokölluðu, sem kemur til frádráttar í þessu, þannig að þeir sem þar eiga í hlut fá sennilega ekki nokkurn skapaðan hlut út úr þessu frumvarpi.

Ég vísaði til þess að þessi aðgerð er óréttlát vegna þess að þeir sem í hlut eiga hafa ekki orðið fyrir því meinta tjóni sem menn hafa verið að lýsa í þessum forsendubresti. Það varð hér forsendubrestur í öllu samfélaginu og áður en bótum er úthlutað þá finnst mér rétt að lýst sé eftir þeim sem urðu fyrir tjóni.

Á sumarþingi var flutt frumvarp sem varð að lögum, þar sem Hagstofunni var falið að rannsaka skuldir heimila. Ég taldi, þegar ég gekk að því að samþykkja það frumvarp, að það ætti að verða undanfari aðgerða vegna þess að til að gera aðgerð þá þurfa menn að vita eitthvað. Það hefur engin niðurstaða komið frá Hagstofunni en frumvörpin hafa komið.

Ég vísa enn og aftur til þess að ég tek undir það sem sagt er í minnihlutaáliti hv. þm. Péturs H. Blöndals. Það er að lokum það að menn telja að þessi aðgerð sé að fullu fjármögnuð með bankaskatti. Nú er það þannig að bankaskattur leggst á tvenns konar fjármálastofnanir, hann leggst á fjármálastofnanir sem eru í rekstri og fjármálastofnanir sem eru í slitum. Í fjármálastofnunum sem eru í rekstri er lagður skattur á skuldir, innlán, og á þann hluta innlána sem eru innlán lífeyrissjóða í bankakerfinu er skatturinn um það bil 500 millj. kr. Að stærstum hluta er þetta lagt á fjármálastofnanir sem ekki eru í rekstri og þeir peningar eru nefnilega jafn hættulegir þegar þeir koma inn í þessa aðgerð og þeir eru hættulegir þegar kröfuhafar taka þá út. Það er það sem við erum að berjast við, að sýna fram á að krónueignin er einskis virði og hún er stórhættuleg fyrir þessa aðgerð og hún mun leiða til þess að verðbólga á hverju ári mun aukast um 1%. Með hugsanlegum aðgerðum Seðlabanka mun verða hægt að draga úr þeim um 0,5% sem þýðir 0,5% raunvaxtahækkun þannig að hér er vegið að stöðugleika.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri en ég ítreka andstöðu mína við þetta frumvarp. Ég hef lokið máli mínu.