143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[16:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og yfirferð á þeim sjónarmiðum sem hann hefur í þessu máli.

Það er tvennt sem ég mundi vilja inna hv. þingmann nánar eftir. Hann ræddi talsvert um að hann teldi að frumvarpið, verði það að lögum, muni hafa neikvæð áhrif á stöðugleikann. Ég vil spyrja hann hvort hann sé í raun sammála því sjónarmiði, sem m.a. er rakið í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, að líklegt sé að lagasetningin muni auka eftirspurn og þenslu sem birtast mun í aukinni einkaneyslu og þar af leiðandi vöxt innflutnings með tilheyrandi þrýstingi á gjaldmiðil, óhagstæðari viðskiptajöfnuði og verðbólguáhættu. Áhrifin verði sem sagt aukin verðbólga, veiking gjaldmiðilsins og hærri stýrivextir. Það er fyrra atriðið sem ég vildi spyrja hv. þingmann út í.

Síðan vil ég líka spyrja hann út í hver hann telur að hrein áhrif á ríkissjóð verði. Því er haldið fram, m.a. á heimasíðu forsætisráðuneytisins, að hrein áhrif á ríkissjóð verði óveruleg fyrir hvert ár á tímabilinu 2014–2017. En í téðu nefndaráliti sem ég var að vísa í er áætlaður kostnaður hins opinbera vegna áforma um höfuðstólsniðurfærslu og húsnæðissparnað metinn í kringum 200 milljarðar, 188 og er jafnvel kominn yfir 200 milljarða með þeim breytingartillögum sem nefndin hefur gert. Mig langar að heyra hvort hv. þingmaður sé sammála þessum viðhorfum.