143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:00]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Við erum núna komin í 2. umr., meginumræðu um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sem er hluti af ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur lagt til við þingið að verði farið í til að lækka höfuðstól fasteignahúsnæðislána. Hinn meginhluti þessara ráðstafana, sem felst í ráðstöfunum í gegnum séreignarsparnaðinn, hefur verið hér til umræðu fyrr en það má segja að þetta sé stærri pakkinn í þessu samhengi, örlítið stærri að því er varðar fjárhæðir.

Það er nauðsynlegt að fara aðeins yfir þetta mál í nokkuð ígrunduðu og ítarlegu máli og það er meðal annars ástæða þess að þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskaði eftir tvöföldum ræðutíma í þessu máli, vegna þess að við teljum að mikilvægt sé að ræða þetta nokkuð ítarlega. Hér er auðvitað gríðarlega stórt mál á ferðinni, það eru mjög ríkir hagsmunir, það eru miklir fjármunir undir, opinberir fjármunir og það skiptir máli hvernig þeim er ráðstafað. Það er því eðlilegt að þetta mál fái viðurhlutamikla umræðu og jafnvel þótt við séum komin á síðustu metrana í þinghaldinu fyrir vorið þá á sú staðreynd ekki koma í veg fyrir að mál af þessari stærðargráðu fái viðeigandi umræðu. Mér finnst nauðsynlegt að segja þetta í upphafi vegna þess að eins og ég sagði er ræðutíminn tvöfaldur og ég áskil mér að sjálfsögðu rétt til að nýta mér hann ef ég tel þörf á.

Mig langar að byrja á því að ræða aðeins um þetta mál út frá þeim loforðum og vilyrðum og fyrirheitum sem voru gefin í tengslum við og fyrir alþingiskosningarnar 2013. Það fer auðvitað ekkert hjá því að þetta mál var mjög umfangsmikið í kosningabaráttunni og var látið í veðri vaka, einkum og sér í lagi af núverandi stjórnarflokkum, að nauðsynlegt væri að ráðast í almennar aðgerðir til að lækka skuldabyrði heimilanna og það fylgdi þá gjarnan sögunni að ekkert hefði verið gert fyrir heimilin á síðasta kjörtímabili, ekkert. Þetta er frasi sem við heyrðum oft, að ekkert hefði verið gert fyrir heimilin í landinu á síðasta kjörtímabili. Þá er náttúrlega líka nauðsynlegt að rifja upp að það varð efnahagshrun árið 2008, gríðarlega mikið hrun sem má segja að hafi ekki aðeins verið efnahagslegt heldur líka samfélagslegt, því að það lék samfélagið mjög illa, ekki einungis í efnahagslegu eða fjárhagslegu tilliti heldur líka siðferðilegu og tilfinningalegu samhengi og þá forsögu er mikilvægt að rifja upp í þessu samhengi.

Þegar ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tók við völdum í ársbyrjun 2009 eftir að fyrri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins hafði beðist lausnar blasti auðvitað við líklega stærra viðfangsefni en nokkur önnur ríkisstjórn, mér liggur við að segja á sögulegum tíma en segjum alla vega á lýðveldistímanum, hefur fengið í fangið og hallinn á ríkissjóði á þriðja hundrað milljarðar kr. á árinu 2009 sem afleiðing af efnahagshruninu. Þetta var það stóra viðfangsefni sem sú ríkisstjórn fékk í fangið og var í raun og veru að glíma við allt kjörtímabilið. Þegar núverandi ríkisstjórn og stjórnarþingmenn stæra sig af því að ríkisstjórnin hafi lagt fram fyrstu hallalausu fjárlögin í sex ár finnst mér stundum eins og það sé undirliggjandi að það hafi gerst yfir nótt, að ríkissjóður hafi allt í einu orðið hallalaus með tilkomu núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Það verður auðvitað að hafa í huga að fyrrverandi ríkisstjórn var að glíma við það í fjögur ár að ná hallanum niður úr rúmum 200 milljörðum og nánast í jafnvægi. Ég vil að minnsta kosti halda því fram að það sé svo innan skekkjumarka að fullyrða megi að það hafi nánast verið í jafnvægi og ríkisfjármálaáætlun fyrrverandi ríkisstjórnar gerði að sjálfsögðu ráð fyrir því að afgangi yrði síðan skilað í áframhaldi, þannig að núverandi ríkisstjórn hefur ekki að mínu viti unnið neitt sérstakt afrek í því efni annað en að taka við þeim árangri sem fyrrverandi ríkisstjórn skilaði af sér og gæta þess að klúðra eða missa þann árangur ekki niður. Við höfum síðan verið að deila hér í vetur og í tengslum við fjárlagaafgreiðslu fyrir árið 2014 um þá forgangsröðun sem núverandi ríkisstjórn hefur viðhaft, bæði að því er varðar útgjöld en líka tekjuöflun í formi skatta og tekjuöflun í formi þjónustugjalda af ýmsum toga. Þar birtist að sjálfsögðu skýr pólitískur munur á milli núverandi stjórnarflokka og þeirra flokka sem sátu í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili.

Í kosningabaráttunni 2013 voru sett fram loforð. Stjórnarflokkarnir höfðu vissulega nokkuð ólíkar áherslur um það hvernig ætti að glíma við þau viðfangsefni sem tækju við á þessu kjörtímabili. Sjálfstæðisflokkurinn talaði um þessa skattafsláttarleið á séreignarsparnaðinum sem er hluti af þeim ráðstöfunum sem nú er verið að fara í og er gert ráð fyrir að geti verið á fjárhagsbilinu 70–72 milljarðar kr. En það er auðvitað einfaldlega tilfærsla á eignum. Menn eru í raun og veru einungis að flytja sinn eigin sparnað til þannig að það er ekki nein sérstök ráðstöfun sem kemur þar inn annars staðar frá að öðru leyti en því að opinberir aðilar, ríki og sveitarfélög, verða af skatttekjum til framtíðar litið, og það er auðvitað umtalsvert framlag í sjálfu sér en það kemur ekki frá þeim sem mátti ætla og mátti skilja, einkum og sér í lagi af framsóknarmönnum, að ættu að bera þessar byrðar, hinum svokölluðu hrægammasjóðum.

Það er eitthvað á reiki í hugum framsóknarmanna sjálfra hverju þeir lofuðu fyrir kosningarnar 2013 en ég held að hægt sé að skjalfesta að það var talað um á bilinu 250–300 milljarða lækkun verðtryggðra lána heimilanna og ég held að það megi líka ætla að það hafi verið skilningur flestra út frá þeim málflutningi að það mundi birtast í 20% niðurfærslu lána á kostnað hinna vondu hrægamma sem svo voru kallaðir.

Síðan var samþykkt hér sl. sumar þingsályktunartillaga í 10 liðum um aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar og í kjölfar hennar var sett af stað vinna af hálfu ríkisstjórnarinnar og skilað skýrslu í nóvemberlok sem forustumenn stjórnarflokkanna kynntu með mikilli flugeldasýningu. En það frumvarp sem við erum með til umfjöllunar víkur frá ýmsum þeim forsendum sem settar voru fram í umræddri skýrslu.

Í umræddri skýrslu var talað um forsendubrestinn og sett fram ákveðin viðmið að því er varðar forsendubrestinn en núna eru í frumvarpinu horfin út þau viðmið þar sem var föst verðbólguviðmiðun, það er horfið út úr frumvarpinu eða birtist ekki í frumvarpinu frá skýrslunni.

Það hefur talsvert verið rætt um það í þessari umræðu hver sé hinn raunverulegi forsendubrestur og hvernig eigi að skilgreina hann og ná utan um hann. Skýrslan frá því í nóvember gerði ráð fyrir ákveðnum verðbólguviðmiðum upp á 4,8% og það átti síðan að leiðrétta höfuðstól verðtryggðra íbúðalána út frá hækkun verðbólgu umfram þau mörk á þeim tíma sem um var að tefla. Í skýrslunni var verið að tala um tímabilið frá og með desember 2007 og til og með ágúst 2010 en núna hefur þetta viðmiðunartímabil skroppið saman þannig að það nær til áranna 2008 og 2009. Það má halda því fram að forsendubresturinn hafi að þessu leyti til verið endurskilgreindur frá því að sérfræðingaskýrslan var gerð og kom út í nóvemberlok og síðan inn í þetta frumvarp. Þessi skilgreining virðist vera nokkuð á kreiki og það er mjög bagalegt ef það er hægt að leggja mismunandi skilning í það hvað felst í hinum meinta forsendubresti vegna þess að það er í sjálfu sér rétt sem kemur fram í nefndaráliti 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, frá hv. þm. Pétri H. Blöndal, að forsendubresturinn birtist í ýmsu. Hann birtist ekki einungis í lánunum, hann birtist auðvitað í auknu atvinnuleysi. Þegar atvinnuleysi fór hér hæst upp í 9%, ef ég man rétt, og á íslenskan mælikvarða er það mjög hátt, varð almennt tekjufall. Það voru mjög margir hópar sem lækkuðu í launum, bæði vegna þess að vinna minnkaði en líka vegna þess að launataxtar voru teknir niður og það má segja að sé forsendubrestur. Þegar það varð svona mikill halli á ríkissjóði í kjölfar efnahagshrunsins var óhjákvæmilegt að brúa það bil og ná niður hallanum, annars vegar með skattahækkunum og hins vegar með niðurskurði útgjalda. Auðvitað er það líka forsendubrestur í sjálfu sér, ef út í það er farið. Ég get því tekið undir það sem segir í nefndaráliti 4. minni hlutans hvað þetta snertir, að forsendubresturinn sé víða og að hann komi með ýmsum hætti niður. Hann kemur ekki eins niður við alla, það er ekki þannig. Þess vegna finnst mér geysilega þýðingarmikið að þegar verið er að fara í ráðstafanir sem kosta ríkissjóð umtalsverða fjármuni sé þeim fjármunum ráðstafað á félagslega réttlátan hátt og komi best til móts við þá sem mest þurfa á því að halda. Það hafa verið færð rök fyrir því að sá hópur sem kannski varð verst úti hafi verið þeir sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð á árunum fyrir hrun. Ég tel að hér séu á ferðinni frekar ómarkvissar aðgerðir þegar það er haft í huga að við erum að tefla um geysilega háar fjárhæðir sem eru út úr ríkissjóði.

Hér er gert ráð fyrir því að lagður sé sérstakur skattur á hina föllnu banka. Það hafa verið uppi efasemdir um að sá skattstofn sé öruggur, í fyrsta lagi að hann standist, og svo aftur að hve miklu leyti hann muni þá skila því sem til er ætlast vegna þess að það er ljóst að þegar búið er að gera upp þrotabú bankanna er andlagið fyrir skattheimtunni væntanlega farið eða þá er þessi fjármálastofnun ekki lengur til staðar til að skattleggja. Það getur að sjálfsögðu haft áhrif á hvað kemur inn og eins hitt, eins og ég segi, að það eru áhöld um það að hve miklu leyti þessi skattheimta stenst. Í öllu falli er gert ráð fyrir 80 milljarða kr. útgreiðslu úr ríkissjóði sem á að koma út á fjórum árum, 20 milljarðar á hverju ári.

Það er líka mikilvægt að hafa í huga að þegar farið er í tekjuöflun á þennan hátt og það koma tekjur í ríkissjóð eins og gert er ráð fyrir er það sjálfstætt umræðuefni hvernig þeim tekjum er ráðstafað og hver sé skynsamlegasta, hagkvæmasta ráðstöfunin á þeim fjármunum, ef þeir koma inn, út frá þjóðhagslegu samhengi og hver sé réttlátasta ráðstöfunin. Í þessari umræðu hafa menn velt því upp hvort heppilegra gæti verið að nota hluta af þessum fjármunum, sumir segja að öllu leyti en kannski að hluta til, til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Við erum að greiða mjög háa vexti af okkar skuldsetta ríkissjóði sem er afleiðing af efnahagshruninu og það hlýtur að vera öllum keppikefli að draga úr þeim vaxtakostnaði. Niðurgreiðsla skulda ríkissjóðs er ein ráðstöfun sem að mínu viti væri viturlegt að fara í.

Það hefur líka verið rætt um styrkingu á ýmsum innviðum vegna þess að óhjákvæmilega hefur efnahagshrunið leitt til þess að þurft hefur að draga úr útgjöldum ríkissjóðs nú um nokkurra ára skeið og við vitum öll að það hefur sneitt mjög nærri margs konar grunnþjónustu í samfélaginu. Það er mikilvægt að nýta það svigrúm sem skapast til að byggja þá þjónustu upp á nýjan leik, þ.e. í heilbrigðisgeiranum, í velferðarþjónustunni, almennt séð í kjörum elli- og örorkulífeyrisþega, námsmanna, menntakerfinu o.s.frv.

Síðan er alveg sérstakur kapítuli að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að ráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, stýri fjárstreyminu, þ.e. ráðstöfunum á þessum 20 milljörðum á ári, með reglugerð. Mér er til efs að það hafi nokkru sinni verið afhent, að Alþingi hafi afhent fjárstjórnarvald sitt á þennan hátt, að ráðherra geti ráðstafað, eða við skulum segja ákveðið leiðréttingarupphæðina sem hér er um að ræða með reglugerð á grundvelli þess að það er einhver tiltekin upphæð sem á að fara í þetta í heildina. Ég velti því fyrir mér að hve miklu leyti sá þáttur hefur verið skoðaður sérstaklega í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar og hugsanlega af hálfu fjárlaganefndar og hvort sérfræðingar í stjórnarfari og stjórnskipunarrétti, stjórnsýslulögum, hafi að einhverju leyti veitt þingnefndunum ráðgjöf eða umsagnir um þetta atriði.

Ég nefndi áðan að í kosningabaráttunni 2013 hefði oft verið sagt og heyrst að ekkert hefði verið gert fyrir heimilin í landinu á síðasta kjörtímabili. Engu að síður er það svo að þegar sérfræðingaskýrslan birtist hér í nóvember er talað um að allar ráðstafanir sem gripið hefur verið til á undanförnum árum komi til frádráttar þeirri leiðréttingu sem nú er verið að tala um. Þá skyndilega blasir það við í skýrslu sem unnin er fyrir núverandi stjórnarflokka að það er ekki þannig að það hafi ekkert verið gert, því að ef það stæðist væri frádrátturinn núll. En þannig er það ekki. Það eru verulegar fjárhæðir sem hafa farið í leiðréttingar. Svo eru menn í einhverjum hártogunum um það hvernig þær hafa komið til, það hafi verið ólögmætir gengisdómar og annað slíkt. Það skiptir ekki máli í þessu samhengi heldur hitt að það stenst ekki það sem haldið var fram, að ekkert hafi verið gert fyrir heimilin í landinu á síðasta kjörtímabili, þvert á móti kemur í ljós að það voru umtalsverðir fjármunir sem þar fóru.

Við höfum bent á það í þessari umræðu að félagslegu áhrifin, félagslegu þættirnir sem koma inn í þetta mál eru þeir að hér er fyrst og fremst um að ræða millifærslu til betur stæðu hópanna í samfélaginu. Þetta eru ekki bara fullyrðingar sem koma úr ranni núverandi stjórnarandstöðu, alls ekki. Það eru ýmsir úr stjórnarliðinu sem halda þessu fram líka og til að mynda birtist fyrir skemmstu grein í blaðinu Selfoss eftir Oddgeir Ágúst Ottesen, hagfræðing og varaþingmann Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, og þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Fyrirætlun stjórnvalda um að greiða niður verðtryggð lán heimila með almannafé felur því í raun í sér tilfærslu frá þeim tekjulægri til þeirra tekjuhærri og frá þeim eignaminni til þeirra eignameiri. Í raun má segja að ungt fólk, leigjendur og eldri borgarar séu að borga niður lán fólks sem hefur það í mörgum tilfellum mun betra en þau. Fyrirhugaðar verðbólgubætur verða hærri á hvern höfuðborgarbúa en íbúa landsbyggðarinnar. Aðgerðin felur því í sér tilfærslu á fjármunum frá landsbyggðinni til höfuðborgarinnar.“

Varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins heldur sem sagt því sama fram og við höfum verið að halda fram í stjórnarandstöðunni, að um sé að ræða, ef við horfum á hina félagslegu þætti málsins, tilfærslu á fjármunum frá hinum tekjulægri til hinna tekjuhærri og einnig frá landsbyggð til höfuðborgar.

Síðan segir þessi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í grein sinni, með leyfi forseta:

„Flestir sjálfstæðismenn sjá að hvorki er hægt að réttlæta fyrirhugaða ríkisniðurgreiðslu á skuldum einkaaðila út frá efnahagslegum rökum né réttlætisrökum. Þá er stundum gripið til þeirra raka að þar sem flokkur sé í samstarfi við Framsóknarflokkinn þurfi hann að láta óskynsamlegar og óréttlátar atkvæðakaupaaðgerðir yfir sig ganga.“

Hann segir að flestir sjálfstæðismenn sjái þetta. En þá er ekki mikið að finna í þingflokki Sjálfstæðisflokksins fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal sem skilar sérstöku nefndaráliti og hv. þm. Vilhjálm Bjarnason sem hefur í máli sínu hér tekið undir þau meginsjónarmið sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er með í nefndaráliti sínu.

Ég vil líka í þessari umræðu nefna lánsveðshópinn. Hvernig getur staðið á því að hann skuli ekki geta sótt um sérstaklega á grundvelli yfirveðsetningar sinnar og fengið úrlausn loksins nú úr því að á að fara að ráðstafa 80 milljörðum af skattfé í skuldaleiðréttingar? Það er rétt að minna á að það náðist loks samkomulag við lífeyrissjóðina og ég vil taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan um aðkomu lífeyrissjóðanna að þessu máli sem hefur verið mikil þrautaganga í raun stjórnvalda gagnvart lífeyrissjóðunum á undanförnum árum og félagslega óábyrg afstaða, ég tek undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Það náðist loks samkomulag við lífeyrissjóðina undir lok síðasta kjörtímabils og þá ætluðu þeir að taka á sig 12–15% af kostnaðinum. En núna á sem sagt ekki einu sinni að nýta þetta framlag þeirra og það á að skilja lánsveðshópinn eftir. Það er í raun algerlega með ólíkindum.

Það eru fleiri lausir endar í þessu máli. Ég hef nefnt það í andsvörum við til dæmis hv. þm. Frosta Sigurjónsson, formann nefndarinnar, bent á hóp sem kannski er ekkert óskaplega fjölmennur. Ég veit ekki nákvæmlega hversu stór hann er og ég veit ekki nákvæmlega hvort hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur fengið upplýsingar um það en það er hópur fólks sem skuldaði hér í íbúð, skuldaði húsnæðislán á því tímabili sem er um að ræða, flutti til útlanda, seldi kannski íbúð sína, missti kannski vinnuna og flutti til útlanda og er komið í vinnu þar og á samkvæmt formúlu frumvarpsins rétt á leiðréttingu. Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um afmörkun leiðréttingarinnar og þar er verið að tala um hvaða tímabil er um að ræða. Það er síðan sérstök formúla í 11. gr. um framkvæmd leiðréttingarinnar til lækkunar á höfuðstól fasteignaveðlána og svo er í 12. gr. fjallað um sérstakan persónuafslátt þar sem segir að leiðréttingarfjárhæð sem ekki verður ráðstafað samkvæmt 11. gr. myndi sérstakan persónuafslátt. Ég fæ ekki séð annað en að sá hópur sem ég er að tala um, þ.e. þeir sem hafa flutt til útlanda og urðu fyrir sama forsendubresti og þessu frumvarpi er ætlað að ná til, að þeir einstaklingar geti sótt um leiðréttingu samkvæmt frumvarpinu og eigi í raun að fá útreikning á leiðréttingarfjárhæð sinni. Ef þeir eru ekki lengur skuldarar þannig að hægt sé að nota leiðréttingarupphæð þeirra til lækkunar á höfuðstól þá hljóta þeir að eiga að fá leiðréttingarfjárhæðina sem sérstakan persónuafslátt. Já, væntanlega gera þeir það en ef þeir hafa ekki launatekjur á Íslandi og þá geta þeir ekki nýtt sér þennan persónuafslátt.

Það er sagt að þeir geti komið heim á næstu fjórum árum. Það er ekki víst að þær aðstæður séu fyrir hendi hjá öllum. Í greinargerð með frumvarpinu um 12. gr. segir, með leyfi forseta: „Sá hluti sérstaks persónuafsláttar sem kann að vera umfram reiknaða skatta kemur til útborgunar.“ Það er sem sagt gert ráð fyrir því að það geti komið til þess að menn fái persónuafsláttinn útborgaðan, nema þessi hópur. Í mínum huga er þetta nefnilega þannig að þegar búið er að reikna leiðréttingarfjárhæðina og hún verður að sérstökum persónuafslætti er það í raun og veru eins og ofgreiddur skattur sem viðkomandi eiga inni hjá ríkissjóði. Og á svo bara að segja við þetta fólk: Nei, þið fáið ekki þessa leiðréttingu. Hvernig getur það staðist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar? Hvernig má það vera? Ég tel að þessu sé enn þá algerlega ósvarað. Ég reyndi að fá svör við því frá hv. þingmanni Frosta Sigurjónssyni í andsvörum við hann fyrr í þessari umræðu og fékk ekki viðhlítandi svör að mínu mati.

Ég tók þetta líka aðeins upp í 1. umr. um málið og þá var talað um að það væru ýmsir þættir þessa máls sem þyrfti að skoða betur og það kom fram af hálfu stjórnarþingmanna að þetta væru meðal annars hlutir sem yrði að skoða betur, hvort það mætti mæta þessum hópi. Ég álít að það geti ekki verið óskaplega fjölmennur hópur, ekki mjög, sem þetta getur átt við um en þó væri fróðlegt að reyna að ná utan um það. Úr því að óskað hefur verið eftir því að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr. vil ég hvetja nefndina til að kanna hvort hún geti fengið upplýsingar um það hvað hópurinn gæti verið stór til að átta sig á því hvort það sé ekki hægt að setja undir þennan leka. Ég vil líka nefna ýmsa aðra hópa sem hafa orðið fyrir forsendubresti að þessu leyti til sem eru með annars konar eða önnur verðtryggð lán og hérna nefni ég auðvitað námslánin alveg sérstaklega. Námslánin eru ætluð fyrir námsmenn til framfærslu og þetta eru verðtryggð lán og þau hafa tekið sömu breytingum og önnur verðtryggð lán, ekki satt? Af hverju eiga námsmenn þá ekki að fá leiðréttingu á þeim forsendubresti sem þeir hafa orðið fyrir alveg eins og aðrir? Þá eru einu svörin sem við fáum hér: Þessi leiðrétting er ætluð þeim sem eru á vinnumarkaði. En hvernig má það vera að menn búi sér til þann ramma ef megintilgangurinn er að leiðrétta forsendubrest þeirra sem voru með verðtryggð lán? Hvernig er þá hægt að setja girðingu þannig að námsmenn geti ekki fengið leiðréttingu? Og ekki eru námsmenn þeir sem eru best haldnir í samfélaginu, nema síður sé. Það er í raun algerlega óskiljanlegt af hverju þetta er takmarkað á þennan hátt, herra forseti.

Ég nefndi það að félagslegi svipurinn á þessum leiðréttingaraðgerðum er eitthvað sem okkur hugnast ekki í stjórnarandstöðunni. Við teljum, og ég hef vísað m.a. í umfjöllun sem kemur úr ranni sjálfstæðismanna, að hér sé um að ræða tilfærslu frá þeim tekjulægri til þeirra tekjuhærri. Það er talað um að þetta séu mörg heimili, jafnvel 60–70 þúsund heimili sem geti nýtt sér að einhverju leyti þessa leiðréttingu. Það er líka alveg ljóst að þeir sem geta nýtt sér þetta hámark til lækkunar, um 4 millj., er hópur sem er kannski með miklar skuldir eða býr í stóru húsnæði með háar tekjur, þannig að félagslega er þetta að okkar mati óréttlátt og hefði verið nær að reyna að nýta það svigrúm sem menn sjá fyrir sér í þessu samhengi til að jafna kjörin enn frekar. Ég lít svo á að það sé eitt af mikilvægum hlutverkum hins opinbera og ríkisins í þessu tilfelli þegar verið er að úthluta almannafé, opinberum fjármunum, að nýta það til að jafna kjör í samfélaginu. Það er ekki sá svipur sem er á þessu máli, nema síður sé.

Þegar verið er að tala um úthlutun á fjármunum eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir, um 80 milljörðum, er fullkomlega eðlilegt að menn velti því fyrir sér og fari í pólitíska umræðu um það hvernig fjármunum er best varið. Við teljum að það sé ekki besta ráðstöfunin eða markvissasta að gera það eins og hér er um að ræða. Það var farið á síðasta kjörtímabili í stórhækkun á vaxtabótum og ég tel að það hefði verið langeinfaldasta og áhrifaríkasta aðgerðin að hækka vaxtabætur frekar, hækka hugsanlega viðmiðunarmörk og hækka fjárhæðirnar. Síðan eru það áhrifin á kostnað á ríkissjóð. Það er ágætlega rakið í áliti 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Á bls. 4–5 er farið aðeins yfir áætlaðan kostnað hins opinbera vegna áforma um höfuðstólsniðurfærslu húsnæðissparnaðar og leiddar líkur að því að hér geti verið um að ræða um 188 og jafnvel um eða yfir 200 milljarða kr. Þá er ekki hægt annað en að spyrja þeirra spurninga hvort þetta sé ábyrg ríkisfjármálastefna. Mér finnst einhvern veginn að það segi sig sjálft að ekki sé hægt að halda því fram. Áhrifin geta síðan einnig, eins og rakið er á bls. 6 í umræddu nefndaráliti, orðið aukin verðbólga, veiking gjaldmiðils og hærri stýrivextir og þá blasir við að ávinningurinn af leiðréttingum af þessum toga brennur upp á mjög skömmum tíma og til lengri tíma litið eru menn væntanlega lakar settir en áður.

Því til viðbótar bætist síðan það sem við höfum verið að fjalla um og köllum kynslóðaáhrifin, þ.e. leiðrétting í núinu fyrir tiltekna hópa á kostnað komandi kynslóða, m.a. í formi þess að ríki og sveitarfélög verða af tekjum og því verður ekki mætt gagnvart komandi kynslóðum öðruvísi en með hækkun skatta á börnin okkar, hækkun þjónustugjalda eða niðurskurði á opinberri þjónustu eða þá að ríki og sveitarfélög skuldsetja sig meira sem þýðir hærri vaxtakostnaður á samfélagið.

Virðulegur forseti. Með allri virðingu fyrir því að stjórnarflokkarnir vilja reyna að efna þau kosningaloforð sem þeir gáfu held ég að maður verði að horfast í augu við það — þeir verða að horfast í augu við það — sem við bentum á: Kosningaloforðin voru óábyrg og illframkvæmanleg, enda er framkvæmdin hér ekki nema brot af því sem lofað var. Þetta er óábyrg ríkisfjármálastefna og ómarkvissar aðgerðir og það eru talsverðir hópar, eins og hér hefur verið rakið bæði í nefndarálitum og í ræðum, sem eiga mikla hreina eign, talað er um 200 eða 230 fjölskyldur sem eiga hreina eign upp á 44 milljarða sem munu fá leiðréttingu. Þegar menn horfa á svona tölur hljóta þeir að velta því fyrir sér í alvöru: Er þetta skynsamleg ráðstöfun og er hún réttlát? Er hún réttlát gagnvart samfélaginu? Mitt svar við því og okkar í mínum flokki, og ég heyri ekki betur en það eigi við um aðra flokka í stjórnarandstöðunni, er að þetta sé ekki réttlátt og þess vegna getum við ekki stutt þessar aðgerðir.