143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[17:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir hrun efnahags og samfélags urðum við öll fyrir umtalsverðu tjóni; ríkissjóður, fyrirtæki og almenningur í landinu. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við búi þar sem halli á ríkissjóði var rúmir 200 milljarðar. Vinstri stjórnin reisti landið upp úr þeirri djúpu efnahagslægð og með áætlunum sínum gerði ráð fyrir hallalausum fjárlögum árið 2014. Ný ríkisstjórn hélt sig við það markmið þótt leiðin að því hafi verið önnur en ríkisstjórn jafnaðarmanna hefði valið. Vinstri stjórnin þurfti að taka margar óvinsælar ákvarðanir til að forða landinu frá gjaldþroti fyrst í stað og síðan til að ná endum saman að nýju. Rauði þráður í gegnum allar hennar aðgerðir var þó sá að styðja við þá sem þurftu á stuðningi ríkisins að halda og feta þá fínu línu að skera ekki svo mikið niður í þjónustu ríkisins að þeir sem mest þurfa á henni að halda bæru þyngstar byrðar hrunsins og hækka ekki skatta svo mikið á einstaklinga og fyrirtæki að vandi hlytist af.

Við þetta erfiða verkefni voru hv. þingmenn sjálfstæðismanna og framsóknarmanna og harðir stuðningsmenn þeirra eins og gjammandi hælbítar. Við það ástand þurftu þeir að glíma sem stóðu í tiltektinni eftir stórkostleg efnahagsleg mistök fyrri ríkisstjórna þeirra sömu flokka.

Hvað var svo í forgangi hjá hægri stjórninni þegar hún tók við? Jú, að veita drjúgan afslátt til útgerðarinnar vegna sérleyfa hennar til að nýta auðlindir þjóðarinnar og gefa erlendum ferðamönnum afslátt af neysluskatti. Á ársgrunni eru þetta um 9 milljarðar. Til stendur að gefa útgerðinni enn meiri afslátt þótt aldrei hafi arður sem myndast þar vegna auðlindar þjóðarinnar verið meiri í sögunni en á undanförnum árum. Árlegi afslátturinn er meiri en upphæðin sem greidd er úr ríkissjóði til þess að reka Háskóla Íslands á ársgrunni. Þeir völdu að skera enn frekar niður við öll ráðuneyti og mikið í menntakerfinu, hækka álögur á þá sem þurfa að nýta sér heilbrigðiskerfið og hjálpartæki vegna fötlunar svo dæmi séu tekin og skera niður fjármuni sem ætlaðir voru til uppbyggingar á ferðamannastöðum og innviðum friðlýstra svæða. Þeir rembast síðan svo við að smíða nýja gjaldtöku til að mæta því tjóni og kostnaði sem byltingarkennd fjölgun ferðamanna hér á landi hefur haft í för með sér og til að hafa upp í afslætti á neyslusköttum, gistingu og bílaleigum.

Ofan í kaupið heimta hv. þingmenn stjórnarflokkanna nú stuðning við sínar óskynsamlegu aðgerðir sem munu enn auka á óréttlæti og mismunun í samfélaginu. Samfylkingin vill niðurgreiða skuldir þeirra sem keyptu á versta tíma, lánsveðshópsins sem ekki hefur notið úrræða fyrri ríkisstjórnar og mæta heildstætt málefnum leigjenda.

Í mars 2012 lagði Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mat á áhrif þess að lækka höfuðstól húsnæðislána um 10–25%. Sú skýrsla er aðgengileg á vef Hagfræðistofnunar og er um margt fróðleg. Þar kemur meðal annars fram hvernig þróun vísitölu neysluverðs, launa og íbúðaverðs á árunum 2000–2012 var háttað. Ég vísa nú í skýrslu Hagfræðistofnunar:

Þróun vísitölu neysluverðs, launavísitölu og vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2000–2012 var eftirfarandi þegar skoðaðar eru hlutfallslegar breytingar: Á tímabilinu 2000–2003 var vísitala neysluverðs 17,6%, þ.e. breytingar höfðu orðið 17,6% á tímabilinu. Breytingar á launum voru 28,9%, en á íbúðaverði 35,9%. Á tímabilinu 2004–2007 var hlutfallið þannig að vísitala neysluverðs hafði breyst um 22,5%, laun um 33,4% en íbúðaverð um 92,3%. Á árunum 2008–2009 hafði vísitala neysluverðs breyst um 29,9%, laun um 15,8%, en íbúðaverð lækkað um 15,3%. Á árunum 2011 og 2012 er breyting á vísitölu neysluverðs 6,5%, en í launum 9,1%. Þá er íbúðaverð aftur komið í plús, eða upp í 9,2%. Samantekið eru hlutfallslegar breytingar á árunum 2000–2012 á vísitölu neysluverðs 98%, á launum 123,8% og á íbúðaverði 150,6%.

Virðulegi forseti. Þróun raunlauna og raunfasteignaverðs eftir þessum sömu tímabilum eru einnig tilgreind í skýrslu Hagfræðistofnunar. Ég vil fara yfir þá töflu einnig því hún er fróðleg og sýnir okkur hvaða tímabil eru erfiðust.

Taflan sýnir þróun raunlauna og raunfasteignaverðs eftir tímabilum árin 2000–2012, hlutfallslegar breytingar. Á árunum 2000–2003 er hlutfallsleg breyting á launum 9,6%, en 15,5% á íbúðaverði. Þetta eru raunbreytingar. 2004–2007 er breytingin 8,9% á launum, en 57% í íbúðaverði. Síðan kemur hrunið og hlutfallslegar breytingar 2008–2010 eru þær að laun fara í mínus 10,9% á þessu tímabili og íbúðaverð í mínus 34,8%. Síðan er aftur komið í plús á árunum 2011 og 2012. Þá eru hlutfallslegar breytingar á launum um 2,5% upp á við. Sama á við um íbúðaverð. Samantekið á þessu árabili frá 2000–2012 er hlutfallsleg raunhækkun launa 13% og raunhækkun á íbúðaverði 26,6%.

Virðulegur forseti. Það er augljóst af þessum upplýsingum hvaða hópur það var sem fór verst út úr hruninu og hvaða hópar hafa í raun hagnast af íbúðakaupum þrátt fyrir hrun. Er réttlætanlegt að rétta þeim fé úr ríkissjóði sem í raun hafa hagnast á stöðunni þrátt fyrir hrun?

Við verðum að horfast í augu við þann kalda raunveruleika að ríkissjóður er of skuldsettur. Við stöndum mjög veik fyrir og munum ekki þola stór utanaðkomandi áföll með slíka skuldsetningu á ríkissjóði. Vaxtakostnaður er allt of hár, eða rétt um tæpir 80 milljarðar í ár. Við hljótum öll að vera sammála um að finna megi uppbyggilegri not fyrir þá fjárhæð sem við greiðum árlega ef okkur tekst ekki að greiða niður skuldir.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um opinber fjármál. Þar eru meðal annars sett fram skilyrði fyrir fjármálastefnu og fjármálaáætlanir og að þau verði m.a. þessi: Að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum en að viðbættum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en sem nemur 45% af vergri landsframleiðslu. Ef skuldahlutfallið, samkvæmt þeim lið sem ég las áðan, er hærra en 45% skal sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% á hverju ári. Við erum í þeirri stöðu að skuldsetning er meiri en 45% og upphæðin sem við ættum því að verja að lágmarki til þess að greiða niður skuldir er 17 milljarðar kr. á ári.

Mér finnst mikilvægt að við skoðum þessi frumvörp um skuldaniðurfellingar í þessu samhengi. Við verðum að horfast í augu við stöðuna eins og hún er. Hér eru ákveðin áform um að gera áætlun um niðurgreiðslu skulda og þá þurfum við að meta það hvernig við getum mætt þeirri kröfu um leið og við greiðum niður skuldir þeirra sem þurfa jafnvel ekkert á því að halda.

Við getum ekki horft fram hjá því að við þurfum að mæta 400 milljarða skuldbindingu vegna B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hann mun tæmast eftir einhver ár, innan við tíu ár ef ég man rétt. Þá þurfum við að greiða þar inn 17–20 milljarða. Síðan er A-deildin í neikvæðri stöðu þótt ekki sé um eins háar upphæðir að ræða þar. Að ógleymdu því að aldursdreifing þjóðarinnar er að breytast. Strax í fjárlögum 2014 gerum við ráð fyrir, eingöngu vegna þess að fleiri eru í elsta aldurshópnum en áður, 3,4 milljarða kr. aukningu til almannatrygginga. Það er bara vegna aldursdreifingar núna. Þessi breyting á eftir að verða þyngri á næstu árum. Þó svo að eldra fólkið í landinu sé hraustari en áður var er samt sem áður nauðsynlegt að gera áætlanir um hvernig eigi að mæta þeim kostnaði sem falla mun á ríkissjóð vegna þessa. Það þarf að taka allt þetta inn í dæmið og meta um leið áhrifin af þeim skuldaniðurfellingarfrumvörpum sem hér eru til umræðu.

Ég nefndi áðan að mælt hefur verið fyrir frumvarpi um opinber fjármál. Á bls. 28 í frumvarpinu eru skýringar með lagagreinunum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ítarlegri ákvæði en nú gilda um stefnumörkun í opinberum fjármálum, en gert er ráð fyrir að stefnumörkunin verði vandaðri, formfastari og til lengri tíma en tíðkast hefur. Slíkt fyrirkomulag er einkennandi fyrir þau ríki sem hafa náð hvað bestum árangri við stjórn opinberra fjármála.“

Ég hef lýst mig mjög jákvæða gagnvart þessu frumvarpi og er í þeirri nefnd sem mun fjalla um það og ég hlakka til þess að taka á því. Allar greinar frumvarpsins byggja á grunngildum sem eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að frumvörpin um skuldaniðurfellingu eru ekki í neinu samræmi við markmið frumvarpsins um opinber fjármál. Því er það í raun eins og hver annar farsi að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hafi mælt fyrir þeim báðum. Þessi mál stefna hvor í sína átt og maður getur sagt sem svo að það hafi þurft hamskipti til þess að sami maður hafi getað talað fyrir báðum málunum.

Hæstv. ráðherra mælir fyrir breytingum á fjárreiðulögum þar sem markmið um stefnumótun og áætlanagerð til framtíðar byggja á þeim gildum sem ég fór hér yfir en svo eru þessi frumvörp lögð fram á svipuðum tíma sem eru í algjörri andstæðu við slíka hugsun opinberra fjármála, því þau bera með sér óvissu um áhrif á kjör almennings til framtíðar. Það hefur komið fram í hverju álitinu á fætur öðru að efnahagsleg óvissa fylgir frumvörpunum báðum.

Hv. fjárlaganefnd var beðin um að skila umsögn til hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvörpin. Minni hlutinn skilaði séráliti og sérumsögn til nefndarinnar. Ég vil fara stuttlega yfir tvö atriði sem snerta það sem ég var að segja hér áðan.

Með leyfi forseta, stendur í umsögn minni hluta fjárlaganefndar:

„Í athugasemdum við frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kemur fram að niðurgreiðslan sé fullfjármögnuð, þ.e. að jafnvægi verði í gjöldum og tekjum ríkissjóðs vegna aðgerðanna. Minni hlutinn setur stórt spurningarmerki við þá fullyrðingu að þessi aðgerð sé að fullu fjármögnuð á sama tíma og ríkissjóður skuldar yfir 1.500 milljarða kr. Bankaskatturinn er ekki markaðar tekjur, þ.e. tekjur sem lögum samkvæmt skal verja í ákveðin útgjöld eða verkefni. Þeim milljörðum sem vonandi renna í ríkissjóð í formi bankaskatts væri hægt að ráðstafa á ótal aðra vegu. Ekki liggur fyrir hvernig á að fjármagna niðurgreiðsluna ef bankaskattur dugir ekki til og gerir minni hlutinn alvarlegar athugasemdir við það. Af frumvarpinu má skilja að breytist forsendur fyrir innheimtu skatta sem ráðstafað verður til niðurgreiðslunnar muni húsnæðiseigendur ekki fá þá niðurgreiðslu sem þeir máttu vænta.“ — Við spurðum einmitt út í þetta.

„Minni hlutinn vekur hins vegar athygli á því að við umræður í nefndinni“ — þ.e. í hv. fjárlaganefnd — „kom fram hjá meiri hlutanum að muni bankaskatturinn ekki skila sér að fullu verði skorið niður í ríkisrekstrinum til að fjármagna aðgerðirnar. Fjármála- og efnahagsráðherra staðfesti þessa fyrirætlan ríkisstjórnarinnar á Alþingi 28. apríl sl. Að mati minni hlutans er nauðsynlegt að stjórnvöld geri grein fyrir hvar verður skorið niður fari svo að tekjuhliðin bregðist, enda má við því búast að slíkur niðurskurður komi harðast niður á þeim er síst skyldi.“

Minni hluti fjárlaganefndar bendir einnig á það augljósa að leigjendur fá ekkert út úr þessum aðgerðum og að óljós staða margra hljóti að gera úthlutunina flókna.

Það er því algjörlega óviðunandi að lýst sé óvissu um efnahagsleg áhrif, en engar mótvægisaðgerðir séu kynntar. Það er bara sagt að skuldarar muni fá þetta greitt. Hvað um aðra þjónustu ríkisins? Hvað um velferðarkerfið? Hvað um heilbrigðiskerfið og menntakerfið ef þessi niðurfærsla er í algjörum forgangi eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur staðfest hér úr ræðustól?

Í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar er ágætistafla yfir hugsanlegar aukaverkanir sem fylgja þessu frumvarpi. Þar er m.a. tekið tillit til mats Seðlabankans. Í töflunni er kostnaður vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í skuldamálum reiknaður upp og í ljós kemur að 50 milljarðar að minnsta kosti leggjast ofan á þá 72 milljarða sem ætlaðir eru í gegnum bankaskattinn. Það er því algjörlega og fullkomlega óábyrgt að segja að þessi aðgerð sé að fullu fjármögnuð. Hún er það ekki þótt erfitt sé að benda á og tína til krónur og aura hvað þar varðar, en áætlanir allar og greiningaraðilar benda á þessa óvissu.

Efnahagsleg áhrifin munu ekki bara lenda á þeim sem fá skuldaniðurfellingar, virðulegi forseti, heldur á öllum landsmönnum, líka á þeim tekjulægstu, líka á þeim sem eiga ekkert húsnæði og fá ekkert út úr þessum aðgerðum. Þau lenda á allri þjóðinni.

Virðulegur forseti. Það er því mikið áhyggjuefni og í algjöru taktleysi við frumvarpið um opinber fjármál sem byggir á allt öðru en einhverju slumpi á efnahagslegum áhrifum stórra aðgerða stjórnvalda. Það er einmitt til þess að koma í veg fyrir slíkt og í þeim anda sem það frumvarp er skrifað.

Skrifstofa efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytisins leggur fram minnisblað. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með það minnisblað. Þar kemur t.d. fram að afar fá heimili eigi rétt á hámarksniðurfærslu sem er 4 millj. kr. Hvað eru afar fá heimili? Eru það tíu heimili? Erum við að tala um 40 milljónir? Eru það 100 heimili kannski? Eða eru það kannski þúsund heimili? Erum við að tala um 4 milljarða? Hvað eru afar fá heimili? Auðvitað þarf það að vera ljóst hvaða fjölskyldur fá fulla niðurgreiðslu því það eru þau heimili sem ekki fengu neitt út úr skuldaniðurfellingum síðustu ríkisstjórnar, en þær voru annaðhvort bundnar við tekjur eða eignir. Allra líklegast er að þarna sé um efnuðustu heimilin í landinu að ræða sem fá fulla niðurgreiðslu, en þau eru samkvæmt skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu afar fá. En hvað það eru mörg heimili er ekki ljóst.

Síðan kemur fram í minnisblaðinu að óverulegur hluti eða aðeins um 3% af heildarniðurfærslu fer til heimila þar sem fasteignamat er yfir 70 millj. kr. Óverulegur hluti, aðeins um 3%. Hvað eru 3% af 80 milljörðum? Það eru 2,4 milljarðar. Það mætti laga ýmislegt fyrir þá upphæð. Það mætti laga ýmsa vegaspotta úti um land. 2,4 milljarðar eru t.d. 75% af þeirri upphæð sem ætluð er til Norðfjarðarganga árið 2014. Það mætti byggja upp ferðamannastaði og laga aðgengi að náttúruperlum sem nú liggja undir skemmdum. Það er ýmislegt hægt að gera við 2,4 milljarða. Það veldur mér vonbrigðum að menn skuli láta að því liggja að þetta skipti engu máli. Þetta er stórmál í skuldsettum ríkissjóði á tímum þar sem skorið er niður á öllum sviðum velferðarþjónustu. 16 milljarðar fara til þeirra þar sem fasteignaverð er yfir 40 millj. kr.

Virðulegi forseti. Hér er því verið að rétta ríku fólki skattfé. Það er, eins og ég rakti hér áðan, í raun óskiljanlegt á meðan verið er að skera niður á sama tíma þjónustu til þeirra sem þurfa á stuðningi ríkisins að halda. Þetta eykur óréttlæti og misrétti í samfélaginu. Vissulega er það þannig að sumir fá þarna niðurgreiðslu sem ég er sammála að þurfi á niðurgreiðslu að halda. Þeir sem keyptu á þeim tíma þegar verðið var hæst og þegar vextir voru í hæstu hæðum. En það eru allt of margir sem þarna fá rétt ríkisfé sem þurfa ekkert á því að halda. Það er fullkomlega óábyrgt þegar ríkissjóður er í þeirri stöðu eins og hann er og í ljósi þeirra aðgerða sem við höfum þurft að grípa til undanfarin ár frá hruni.

Ég hef lagt fram breytingartillögu um hækkaðar barnabætur. Sú tillaga miðar að því að barnabætur sem Alþingi samþykkti að rynnu til barnafjölskyldna í landinu gangi þangað óskertar. Ég á von á því að þingmenn muni samþykkja breytingartillögu mína, sem er mjög hógvær, samhljóða. Varla fara þeir að neita því að hækka viðmið sem sett voru haustið 2012 vegna barnabóta örlítið þannig að barnabætur gangi til fólksins eins og Alþingi samþykkti. Varla fara hv. stjórnarþingmenn að greiða atkvæði gegn því, en samþykkja að láta stóreignamenn fá milljarða. Það getur varla verið, virðulegi forseti. Ég mun ekki trúa því fyrr en ég tek á því.

Ég vil benda á nefndarálit hv. þm. Péturs H. Blöndals, sem er 4. minni hluti efnahags- og viðskiptanefndar. Hann hefur farið yfir það nefndarálit sjálfur og margir hafa vitnað í það. Mér finnst rétt að benda á það því þar eru tekin svo góð dæmi sem sýna óréttlætið og misréttið sem liggja í þessum aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem nú er kominn í salinn. Það er ánægjulegt að hæstv. forsætisráðherra komi hér undir lok þessarar umræðu og ég vona að hann sé á mælendaskrá.

Hér hafa aðeins tveir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins talað um skuldaniðurfellinguna, það eru þeir tveir hv. þingmenn sem eru á móti henni, sjálfstæðismennirnir Pétur H. Blöndal og Vilhjálmur Bjarnason. Aðrir sjálfstæðismenn hafa ekki tjáð sig um málið nema hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu. Það eru ákveðin skilaboð. En menn skulu náttúrlega ekki láta sér detta í hug að þeir geti firrt sig ábyrgð á aðgerðunum með því að ganga ekki í pontu til þess að tala um þær. Þeir sem samþykkja niðurfellingu sem þessa bera á henni fulla ábyrgð.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason hefur lagt fram breytingartillögu sem er málamiðlun. Hún gengur út á það að niðurfellingarnar nái til fólks í lokuðum leigufélögum og til búseturéttarhafa, að eignatengja niðurfellingar og þær hefjist, eins og eignatengingar sérstakra vaxtabóta, við hreina eign umfram 10 millj. kr. í tilviki einstaklings og 15 millj. kr. í tilviki para í sambúð. Þeim ljúki við tvöfalda þá fjárhæð þannig að pör í sambúð fái ekki niðurfellingar ef hrein eign þeirra er meiri en 30 millj. kr. Síðan er lagt til að tekjutengja niðurfellingarnar þannig að fólk með hærri laun en 95% Íslendinga fái engar niðurfellingar, og skerðingar hefjist við 85% mörkin. Miða skuli við upplýsingar um heildarlaun sem Hagstofan safnar. Að lokum er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að leggja fram frumvarp næsta haust um niðurfellingu námslána.

Þarna er um breytingar að ræða í þá átt að gera frumvarpið réttlátara. Þetta er málamiðlun, þetta er ekki eins og Samfylkingin hefði lagt málið upp, en er ákveðin málamiðlun sem ég vona að hv. stjórnarþingmenn taki vel og hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari vandlega yfir.

Að öðru leyti, virðulegi forseti, vil ég segja að þetta frumvarp er algjörlega óásættanlegt eins og búið er um það. Efnahagslega óvissan er þannig að við vitum ekki nema að eftir örfá ár muni aðgerðirnar koma í bakið á okkur og allur almenningur þurfa að bera kostnaðinn. Það er ekki góð framtíðarsýn.