143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:07]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Margt í ræðu hv. þingmanns lýsir að mínu mati mjög undarlegum viðhorfum, undarlegri forgangsröðun, en því miður er það í samræmi við það sem margir félagar hennar hafa sagt hér fyrr í dag, og virðist lýsa þeirri skoðun að ef ekki sé hægt að gera allt fyrir alla samtímis í tiltekinni aðgerð þá eigi ekki að fara út í hana, þá sé betra að gera ekkert fyrir neinn. Hér er um að ræða aðgerð sem er ætluð til þess að koma til móts við hóp sem var vanræktur á síðasta kjörtímabili, hóp sem liggur enn óbættur hjá garði meira en fimm árum eftir efnahagshrunið, hóp sem var hægt að koma til móts við strax eftir hrun áður en bönkunum var skipt upp.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hún sé ekki sammála mér um að það hefði átt að skipta bönkunum upp á þann hátt að skuldir, m.a. heimilanna, væru færðar niður og það tækifæri sem gafst af því að lánasöfn bankanna voru lágt metin yrði nýtt. Raunar voru þessi lánasöfn þrátt fyrir allt keypt á verulegum afslætti. Hefði hv. þingmanni ekki þótt eðlilegt og sanngjarnt að fólkið sem skuldaði þessa peninga nyti að einhverju leyti góðs af því að skuldir þess voru seldar á afslætti upp á tugi prósenta? Eða áttu bankarnir, þeir sem keyptu þessar skuldir fólksins, að halda áfram að innheimta upp í topp, innheimta 100% af skuldum sem þeir keyptu kannski á 60%? Hefði það verið æskilegt að mati hv. þingmanns? Hvers konar jafnaðarmennska væri það?

Næsta spurning: Ef enn er hægt að bjarga málum, þrátt fyrir öll mistök síðasta kjörtímabils, þannig að þetta fólk, hvers skuldir voru seldar á afslætti, geti notið í einhverju góðs af þeim afslætti, (Forseti hringir.) hvað á að gera í því?