143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:09]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir andsvarið. Hann telur viðhorf mín til þessara frumvarpa vera undarleg og, ef ég skildi hann rétt, að ég telji ekki hægt að gera neitt fyrir neinn ef ekki sé hægt að gera allt fyrir alla. Ég held að hæstv. forsætisráðherra hafi ekki hlýtt á ræðu mína alla vegna þess að ég fór vel yfir það hvaða hópi mér og Samfylkingunni finnst réttlátt að mæta. Það væri hins vegar óásættanlegt að grípa ríkisfé og rétta það forríku fólki. Þannig er staðan í dag, virðulegur forseti.

Nú má vera að í fortíðinni hafi eitthvað verið gert sem gagnrýna megi og við getum farið yfir í löngu máli síðar, en eitt er víst, hrunið var ósanngjarnt, það var ósanngjarnt fyrir okkur öll og þau efnahagslegu mistök sem gerð voru kostuðu þjóðina ansi mikið.

Nú erum við komin hingað á þennan stað, virðulegur forseti, og það er búið að skattleggja bankana þannig að við fáum auknar tekjur í ríkissjóð. Þá finnst mér að það eigi að úthluta þeim skatti aftur með réttlátum hætti. Það frumvarp sem er hér til umræðu tel ég ýta undir óréttlæti og misrétti í samfélaginu. Það finnst mér óásættanlegt.