143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég finn mig knúna til að leggja orð í belg um þetta risavaxna mál sem hér liggur fyrir þinginu, frumvarp til laga um leiðréttingu fasteignaveðlána. Það má segja að kosningabarátta síðasta árs hafi í raun snúist um þetta mál þegar litið er til baka og þegar umræðan fyrir síðustu kosningar er rýnd og skoðuð liggur alveg fyrir að sú hugmyndafræði að fella niður hluta af verðtryggðum íbúðaskuldum almennings sveif yfir öllum vötnum. Þetta var hugmyndin sem var rædd og var tvímælalaust sú hugmynd sem skilaði Framsóknarflokknum sigri sínum í síðustu kosningum.

Við höfum beðið eftir útfærslunni á þessari hugmynd og það var haft á orði að vissulega hefði loforðið minnkað talsvert þegar það var kynnt fyrst á blaðamannafundi í nóvember. Fyrir kosningar var ávallt rætt um 300 milljarða svigrúm sem átti að myndast í samskiptum við erlenda kröfuhafa sem áttu að renna til heimilanna í landinu. Þegar málið var síðan kynnt í nóvember var það svigrúm búið að minnka talsvert eða niður í 80 milljarða. Þegar endanlegt frumvarp liggur fyrir er augljóst að það hefur enn skroppið saman, því umtalsverður hluti af þessum 80 milljörðum fer í kostnað. Eins og komið hefur fram í meðförum hv. efnahags- og viðskiptanefndar og í umræðum hér í þinginu er kostnaður við allar þessar aðgerðir, hvort sem er hinn hluta þeirra aðgerða sem ég hef nú þegar talið upp, þ.e. frumvarp um breytingu á lögum um séreignarsparnað, eða þessar aðgerðir, umtalsvert meiri en gert var ráð fyrir.

Ágætlega er komið inn á þetta í nefndaráliti hv. 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, en þar er farið yfir áætlaðan kostnað hins opinbera vegna áforma um höfuðstólsniðurfærslu á húsnæðissparnað. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur áður farið yfir það í þessari umræðu og ég ætla því ekki að nota minn tíma hér til að ræða það. En þetta er umhugsunarefni þegar við veltum þessum aðgerðum fyrir okkur og við hljótum að spyrja að tvennu. Við hljótum að spyrja okkur að því hvort þessar aðgerðir séu réttlátar og við hljótum að spyrja okkur að því hvort þær séu skynsamlegar.

Fyrst ber að nefna að fjármögnun þessara aðgerða er skattstofn sem lagður er á þrotabú föllnu bankanna. Ég greiddi atkvæði með þeim skattstofni. Ég hef þá trú að hann muni standast lög. Þótt einhverjir hafi velt því upp að óvissa kunni að vera upp um það, það liggur fyrir að það er óvissa, en hins vegar er einnig ljóst þegar sagan er skoðuð að íslenska ríkið hefur umtalsvert svigrúm innan laga og stjórnarskrár til þess einmitt að skattleggja ýmsa stofna. Það kom til að mynda fram í bæði dómi héraðsdóms og Hæstarétts núna um auðlegðarskattinn ágæta sem núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur því miður ákveðið að fella niður.

Hins vegar er þetta tímabundinn skattstofn sem skilar eingöngu hluta af þeim kostnaði sem þessar aðgerðir fela í sér. Hann er tímabundinn til einungis nokkurra ára, enda eru þrotabúin ekki eilíft fyrirbæri.

Ég spyr fyrst að því hvort þessar aðgerðir séu skynsamlegar í ljósi þess að þarna erum við að leggja á nýjan skatt sem ég styð og við styðjum. Við fáum hér inn dýrmæta fjármuni á tímum þar sem skuldir þjóðarbúsins eru gríðarlegar. Við höfum hlýtt á hagspekinga sem hafa verið í vinnu fyrir hv. ríkisstjórn, fyrrverandi hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson svo dæmi sé tekið, ræða fjálglega að það sé raunhæft markmið að ná niður skuldum þjóðarbúsins með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum. Á sama tíma ætlum við að taka hér inn á fjórum árum 80 milljarða kr. sem við ætlum ekki að nýta í það verkefni að lækka skuldir þjóðarbúsins. Því ætlum við að ná með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum. Það þýðir í raun og veru, ef við setjum það yfir á mannamál, að við ætlum að skera niður sameignina til þess að greiða opinberar skuldir, á sama tíma og við tökum inn fjármagn í sameiginlega sjóði sem við ætlum að dreifa út til almennings í landinu án þess að nokkur skýr réttlætissjónarmið liggi það að baki.

Áður en ég kem að því, þ.e. dreifingunni og réttlætissjónarmiðunum, langar mig að fara betur yfir skynsemissjónarmiðin. Það er alveg ljóst að ríkissjóður og verkefni hans hafa verið skorin verulega niður á undanförnum árum eftir hrun. Gríðarlegu aðhaldi hefur verið beitt og það að ímynda sér að við náum að draga úr skuldum þjóðarbúsins með auknu aðhaldi í ríkisfjármálum eingöngu tel ég óraunhæft. Ég bendi á það sem kemur fram í ágætri bók franska hagfræðingsins Thomas Piketty sem m.a. fjallar um opinberar skuldir og skuldir þjóða í Vestur-Evrópu þar sem skuldahlutfall hefur aukist mjög á undanförnum árum. Hans svar við því hvernig eigi að eiga við þennan skuldavanda er mjög skýrt. Það er með skattlagningu á fjármagn. Þar leggur hann til að ríki Evrópu og helst fleiri taki höndum saman í aukinni samvinnu svo hægt sé að skattleggja fjármagnið, því það þarf aukið gagnsæi, það þarf auknar upplýsingar um hvar fjármagnið liggur. Þetta sé sá skattstofn sem eigi að nýta til að greiða niður opinberar skuldir því við greiðum ekki niður skuldir þjóðarbúsins með því að skerða sameignina. En þróunin undanfarin ár sem hefur birst í vaxandi ójöfnuði hefur m.a. falist í því að sameign almennings hefur verið skert og eignir einstaklinga, örfárra einstaklinga, hafa aukist.

Ég hef því áhyggjur af því að þessi stefna sé ekki skynsamleg. Ef við skoðum hvað er hægt að gera við þessa 80 milljarða er ekki aðeins hægt að greiða niður skuldir fyrir þá. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sögðum fyrir kosningar að við teldum að nýta ætti þetta svigrúm m.a. til að greiða niður skuldir, en líka að horfa til þess að styrkja innviðina.

Eins og ég nefndi lauslega hér áðan hefur verið skorið mikið niður á undanförnum árum. Síðasta ríkisstjórn hafði raunar hafið nýja sókn með því að nýta sérstaklega fjármuni sem komu úr tilteknum tekjustofnum, sérstöku veiðigjaldi sem nú hefur verið lækkað, og nota arð úr bönkunum til að styrkja innviðina. Núverandi ríkisstjórn fór beint í niðurskurð aftur á innviðum og afþakkaði þessar tekjur, kaus að afsala almenningi þessum tekjum. Staðreyndin er sú að við erum með fjársvelta háskóla sem hafa verið fjársveltir frá því löngu fyrir hrun. Við höfum verið langt undir OECD-meðaltali og meðaltali norrænna þjóða t.d. í framlögum til háskólamenntunar. Samt er líklega eitt það mikilvægasta til að tryggja langtímavelsæld á Íslandi að fjárfesta í háskólamenntun, fjárfesta í rannsóknum, fjárfesta í vísindum og nýsköpun. Það væri til að mynda mjög skynsamleg leið til að verja þessum fjármunum.

Önnur skynsamleg leið til að verja þessum fjármunum er að reisa nýjan Landspítala. Manni finnst ankannalegt að heyra frásagnir af því, á sama tíma og við ræðum hér hvernig eigi að deila út 80 milljörðum á fjórum árum með nokkuð ómarkvissum hætti, að hæstv. heilbrigðisráðherra mætir á fund Landspítala og segir: Því miður, það eru bara ekki til fjármunir til að reisa nýjan spítala.

Þetta eru skynsemisrökin í málinu og ég tel mikla þörf á því að fara í einhvers konar blandaðar leiðir. Síðan höfum við talað fyrir því að skoða þurfi stöðu tiltekinna lántakenda. Mér fannst áhugavert að lesa nefndarálit hv. þm. Péturs H. Blöndals, 4. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Þar fer hann aðeins yfir þá orðræðu sem hefur verið í kringum þessi mál öll, þ.e. hann ræðir forsendubrestinn og bendir á að ýmis fordæmi séu hér í sögunni fyrir tímabundinni aukinni verðbólgu. Hann telur að í ljósi sögunnar sé undarlegt að tala um forsendubrest, nær væri að telja skyndilegt atvinnuleysi og almennt tekjufall auk hækkandi skatta til forsendubrests sem er auðvitað eitthvað sem allir Íslendingar upplifðu í gegnum efnahagshrunið.

Hann fer síðan yfir það hvernig skuldalækkunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar koma ólíkt við ólíka hópa eftir því hvenær þeir keyptu sína íbúð. Þetta hefur einnig komið fram í meðförum nefndarinnar. Þeir hópar sem keyptu sínar íbúðir og tóku lán á bilinu 2005 til 2008, ekki síst þeir sem keyptu fyrstu eign sína, eru þeir hópar sem hafa sannanlega orðið fyrir mestum skakkaföllum hvað varðar verðtryggð íbúðalán vegna hruns. Þetta eru þeir hópar sem ég og mín hreyfing töluðum sérstaklega um fyrir kosningar að væri mjög mikilvægt að koma til móts við, til viðbótar þeim aðgerðum sem fyrri ríkisstjórn réðst í og sem ég ætla ekki að tíunda hér en voru kynntar mjög rækilega á blaðamannafundi formanna stjórnarflokkanna í nóvember þegar þeir kynntu fyrstu drög þessara aðgerða.

Í nefndaráliti hv. 4. minni hluta er farið afar vel yfir þetta mál og þar er einnig bent á þá nauðsyn að skynsamlegt sé að nýta þessa fjármuni m.a. til að lækka skuldir ríkissjóðs, þótt ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal séum svo hjartanlega ósammála um það hvernig beri að fara með skattlagningu á fjármagn eins og kemur þar fram. En það breytir því ekki að í þessum málum erum við sammála.

Síðan þegar kemur að því að ræða réttlæti þess hvernig fjármununum er dreift vitna ég til þess að hér ætlum við að nýta mjög mikla fjármuni úr ríkissjóði til þess að fara í aðgerðir sem eru kallaðar almennar og voru boðaðar sem almennar. Það hefur margoft verið bent á það í þessari umræðu að þær snerta ekki þann þriðjung heimila sem er á leigumarkaði. Þær snerta auðvitað ekki það unga fólk sem er í dag í miklum vandræðum með að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Á það hefur verið bent að fyrir liggi hugmyndir til framtíðar fyrir þessa hópa, gott og vel, en þessar aðgerðir snerta ekki þessa hópa. Þannig að því leytinu til eru þær ekki almennar, en þær eru almennar að því leytinu til að þær taka ekki tillit til tekju- og eignastöðu fólks. Þá spyr ég um réttlætið í þessum aðgerðum.

Á það er bent í nefndaráliti 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra, með leyfi forseta, „munu yfir 400 fjölskyldur, sem eiga hreina eign yfir 100 millj. kr. og hafa þar af leiðandi væntanlega greitt auðlegðarskatt“ — sem nú er búið að ákveða að slá af — „eiga möguleika á lækkun höfuðstóls íbúðalána, sökum þess að þrátt fyrir miklar eignir eru viðkomandi samt með íbúðalán. 229 heimili, sem eiga hreinar eignir yfir 120 millj. kr., eru samt með íbúðalán og skulda að meðaltali 9,7 millj. kr. hvert og geta því vænst talsverðar niðurfærslu.“

Jafnvel eru einhverjir þeirra sem geta fengið fullar 4 millj. kr. í niðurfærslu sökum stórra skulda á mjög stórum og dýrum eignum. Þetta eru væntanlega þeir aðilar sem ekki nutu úrræða fyrri ríkisstjórnar, svo sem sérstakra vaxtabóta, 110%-leiðar eða greiðsluaðlögunar.

Því hlýtur maður að spyrja sig um réttlætið í því að á sama tíma og við höfum ekki efni á að byggja Landspítala, á sama tíma og hækkuð eru komugjöld á heilsugæslu, á sama tíma og við hækkum skráningargjöld á stúdenta til að niðurgreiða niðurskurð á háskólakerfinu, notum við opinbert fé til að aðstoða þessar fjölskyldur til að lækka skuldir sínar um allt að 4 millj. kr. Ég fæ ekki séð að þetta sé mjög réttlát aðgerð í dreifingu fjármuna því við hljótum að hugsa það þegar við byggjum upp samfélag að við innheimtum fjármuni og nýtum þá með skynsamlegum hætti þannig að markmiðið sé samfélag fyrir alla. Við styðjum við þá sem þurfa á stuðningi að halda, styðjum ekki endilega við þá sem þurfa ekki á stuðningi að halda nema með því að tryggja almenna velferð og almenna menntun til að tryggja jöfn tækifæri allra, til að tryggja jöfnuð, sem mér verður tíðrætt um þessa dagana í ljósi áhyggna minna af vaxandi ójöfnuði í heiminum og áhyggna minna af því að aðgerðir núverandi ríkisstjórnar muni auka við ójöfnuð. Mér finnst hin skynsamlega nýting á opinberum fjármunum sem þessum vera sú að tryggja innviði og styðja við þá sem á þurfa að halda, en ekki að borga þeim sem greiða auðlegðarskatt vegna mikilla eigna milljónir af opinberu fé til að aðstoða þá við að lækka íbúðaskuldir.

Þarna finnst mér birtast mesta ranglætið í þessum aðgerðum. Það er ástæðan fyrir því að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum ekki styðja þessar tillögur. Við höfum ákveðið að leggja ekki fram breytingartillögur við 2. umr. en áskiljum okkur rétt til að gera það við 3. umr. málsins ef svo fer að þetta verður samþykkt hér á þinginu. Við sögðum í upphafi að við viðurkenndum að sjálfsögðu að hér væri um kosningamál ríkisstjórnarinnar að ræða. Þess vegna fannst okkur mikilvægt að sjá endanlega útfærslu þess áður en við felldum nokkra dóma. Við álítum eftir að hafa skoðað þessar tillögur að þessi útfærsla á stuðningi við fjölskyldur í landinu sé hvorki skynsamleg ráðstöfun opinberra fjármuna né réttlát dreifing opinberra fjármuna. Það eru stóru spurningarnar sem þarf að svara. Ég hef því miður ekki heyrt frá þingmönnum stjórnarflokkanna neitt sem sannfærir mig um annað.