143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[18:53]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður er að spyrja mig um hvort dómur Hæstaréttar, ef hann á við hvort ég telji það hafa verið ranga aðgerð vil ég benda hv. þingmönnum á að dómur Hæstaréttar miðaðist auðvitað fyrst og fremst við lög í landinu, snerist ekkert um réttlæti eða ranglæti, heldur hreinlega um það að þeir samningar sem voru gerðir um gengistryggð lán stóðust ekki lög. Út á það gekk dómurinn. Það hafa auðvitað ekki allir fengið leiðrétt sín lán, en hér voru bankar og fjármálafyrirtæki að veita lán sem stóðust ekki lagaumhverfi. Ég veit því hreinlega ekki — þegar við erum að ræða réttlæti og ranglæti þá erum við ekki endilega að ræða lög í landinu, þannig að það sé bara sagt. Þegar neyðarlögin voru sett á sínum tíma mátu menn það auðvitað sem mjög mikla hagsmuni til þess að halda áfram stöðugleika á bankakerfinu að gefin yrði út yfirlýsing hvað varðaði innstæður eins og hv. þingmaður man vel eftir í þinginu. Hann spurði hvort það hefði verið rétt eða sanngjörn aðgerð. Fyrst og fremst má segja að markmið þeirrar aðgerðar hafi verið — ég tek fram að þá var ég í stjórnarandstöðu eins og hv. þingmann rekur eflaust minni til þegar sú yfirlýsing var gefin — sú aðgerð miðaðist fyrst og fremst við einhver skynsemisrök. Mér finnst því kannski þessar spurningar hv. þingmanns ekki eiga alveg við.

Hér erum við að tala um það að við erum að innheimta ákveðið skattfé. Við erum í ákveðinni stöðu þar sem við horfum á gríðarlegar skuldir. Þau svör sem stjórnarflokkarnir hafa veitt í því hvernig eigi að vinna á þeim er aukið aðhald í ríkisfjármálum sem ekki nokkur maður sér nákvæmlega hvernig á að ná fram. Á sama tíma og ýmsir hv. þingmenn benda á mjög miklar þrengingar í skólakerfinu, í rannsóknum og vísindum, heilbrigðiskerfinu, ætlum við að dreifa þessum fjármunum, líka til ríkustu fjölskyldnanna í landinu. Ef við bara horfum á aðstæðurnar eins og þær eru núna fæ ég ekki séð að aðgerðin sé réttlát eða skynsamleg.