143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[19:52]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú fer að líða að lokum umræðu um frumvarp til laga um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Margt hefur verið sagt í þessum málum og mörg varnaðarorð komið fram gegn aðgerðunum sem þarna eru á ferðinni. Ég segi bara að mér finnst illa farið með almannafé. Þarna er ekkert réttlæti á ferð. Mér finnst einkenna bæði þessi frumvörp að ríkisstjórnin er að uppfylla digur kosningaloforð og leggur sig ekkert fram um að greina þá hópa sem þyrftu á aðstoð að halda eða að forgangsraða í þágu samfélagsins þeim gífurlegu fjármunum sem þarna eru á ferðinni. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir því hverju er verið að henda inn í framtíðina til barnanna okkar og barnabarna með þessum aðgerðum. Það er verið að mæta þessari kynslóð núna með skuldaleiðréttingu og því fólki sem í raun þarf ekkert á aðgerðunum að halda.

Ég hef líka haft áhyggjur af því að enn eina ferðina er lágtekjufólk skilið eftir og enn eina ferðina er landsbyggðin úti í kuldanum. Við vitum vel að fasteignabólan náði ekki út á landsbyggðina. Við getum kannski verið ánægð með það eftir á að hyggja, en þegar verið er að ráðstafa hátt í 80 milljörðum af skattfé almennings til svona aðgerða sem meðal annars nýtast hundruðum fjölskyldna sem eiga samtals 44 milljarða hlýtur eitthvað að vera rangt gefið. Hver heilvita maður hlýtur að sjá það en áfram þjösnast menn við að uppfylla kosningaloforðin þó að útfærslan sé svo bjöguð og vitlaus að það er með ólíkindum.

Hvað væri ekki hægt að gera fyrir alla þessa fjármuni ef við nýttum þá af skynsemi í þágu samfélagsins? Við gætum ávaxtað þetta fé með ýmsum hætti til að nýta það enn betur í þágu okkar sem þjóðar. Við gætum nýtt þetta fé að hluta til í ýmsa nýsköpun, rannsóknasjóði og menntun og uppbyggingu sem hefði margfeldisáhrif í för með sér. (Gripið fram í: … til að búa til eitthvað …) Við gefum nýtt þessa fjármuni í að klára loksins vegakerfið í landinu sem á mörgum svæðum er til háborinnar skammar. Við gætum jafnað búsetuskilyrði í landinu, bætt kjör þeirra sem lægst hafa launin og þeirra sem þurfa að lifa af lágum ellilífeyri og örorkubótum. Við gætum gert svo ótal margt fyrir þetta fjármagn. Hæstv. ríkisstjórn kýs hins vegar að dreifa þessu af örlæti sínu til margra ríkustu fjölskyldna í landinu sem borga auðlegðarskatt og segir það sitt um hver staða þeirra er. 80% af þeim aðgerðum sem við erum að tala um hér, 80 milljarðar næstu fjögur árin, fara á höfuðborgarsvæðið.

Þá segja einhverjir: Já, en er þar ekki mesti fjöldinn? Eru ekki flestar fasteignirnar sem liggja þar undir? Jú, en er vandinn hjá öllum sem þarna eiga í hlut svo mikill að það eigi að ráðstafa öllu þessu fé með þessum hætti? Landsbyggðin hefur búið við forsendubrest í fjölda ára. Ég kem úr byggðarlagi þaðan sem fólk hefur einhverra hluta vegna þurft að flytja, úr því þorpi á höfuðborgarsvæðið, en það hefur byggt einbýlishús með tilheyrandi kostnaði og skuldbindingum, þarf að selja það og það þykir bara gott ef fólk fær 20–30% til baka af þeim kostnaði. Það hefur ekki mikið verið talað um þann forsendubrest eða hlaupið upp til handa og fóta til að mæta því fólki sem hefur þurft að fara frá húseignum á mörgum stöðum á landsbyggðinni þegar það þarf að skilja allan ævisparnaðinn eiginlega eftir í fasteignum sínum einhverra hluta vegna, hvort sem það er vegna þess að það þarf að sækja heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðið eða vegna annarra hluta. Ég verð að vera gagnrýnin á þessa meðferð á almannafé.

Mér finnst með ólíkindum hvernig forsætisráðherra hefur tjáð sig í þessari umræðu, það litla sem hefur heyrst í honum. Hann býsnast yfir því hvernig fyrri ríkisstjórn kom til móts við uppbyggingu eftir þetta ömurlega hrun og lætur að því liggja að hann hefði með stjórnkænsku sinni unnið miklu betur úr hlutunum. Það er skömm að því að heyra menn tala svona sem eiga að vita betur. Hann og við öll vitum að það var ekkert sjálfgefið í þeim efnum að koma okkur aftur á lappirnar. Það er voðalega gott að segja eftir á og vera með ýmsa speki um að þetta hefði verið hægt að gera svona og svona, en það er ekki víst að allir hefðu getað staðið í þeirri orrahríð sem þá stóð yfir. Eftir að hafa fengið samfélagið og ríkissjóð í því ástandi sem síðasta ríkisstjórn tók við ættu menn að þakka fyrri stjórnvöldum af auðmýkt fyrir að færa þeim það gott bú að það væri ansi útlátalítið að vinna úr því sem eftir er. Menn byrja ekki vel og ég hef áhyggjur af því að menn séu að kynda undir í næsta hrun, þessir sömu flokkar og stóðu að því að mál þróuðust á þann veg að hér fór allt til fjandans.

Mér þætti meiri bragur að því að hæstv. forsætisráðherra reyndi að tala fyrir sínum eigin tillögum af einhverjum sannfæringarkrafti en vera ekki sífellt að hnýta í aðgerðir síðasta kjörtímabils og sjá ekkert jákvætt við þær. Mér finnst það lítilmannlegt og ekki bera vott um mikið sjálfstraust eða kjark. Ég vona að forsætisráðherra sem kemur í ræðu í lok umræðunnar sýni að hann sé leiðtogi þjóðarinnar og hífi sig upp fyrir svona tal gagnvart því fólki sem hverju sinni við aðstæður sem vonandi verða aldrei aftur, fordómalausar aðstæður, lagði sig allt fram um að vinna úr erfiðum aðstæðum.

Þessar skuldaleiðréttingar eru ekki það sem við þurfum á að halda eins og þær eru útfærðar af hæstv. ríkisstjórn. Það hefði verið hægt að nýta þessa fjármuni af miklu meiri skynsemi. Ég held að almenningur sé að átta sig á því að með því að hafa greitt Framsóknarflokknum atkvæði sitt keyptu kjósendur köttinn í sekknum. Fólk trúir varla sínum eigin augum að svona eigi að fara með skattfé okkar allra, að það eigi að dæla því fyrst og fremst til þeirra sem hafa fulla burði til að standa undir skuldum sínum og koma um leið í veg fyrir að við getum farið út í fjölda verkefna sem vissulega þurfa á innspýtingu að halda eftir þessi erfiðu ár eftir hrunið þegar allir þurftu að herða sultarólina, hvort sem mönnum líkaði betur eða verr. Það var ekkert annað í boði.

Ég get aldrei samþykkt svona útfærslu með almannafé. Ég tel þetta algjört bruðl, og menn munu í framtíðinni sjá mjög eftir því að hafa farið þessa leið. Það erum ekki bara við í stjórnarandstöðunni sem höfum varað við þessari útfærslu á skuldaleiðréttingu, skynsamir aðilar hafa talað á svipuðum nótum, jafnvel innan Framsóknarflokksins en fleiri hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég veit ekki hvað það segir um flokkana en þannig er það. Menn eiga að hlusta á slíkar raddir.

Við vitum vel að það er ekki auðvelt að vera í stjórnarflokki og hafa kjark til að segja að keisarinn sé í engum fötum. Það tel ég að hv. þingmenn Pétur Blöndal og Vilhjálmur Bjarnason hafi haft kjark til og eru þeir menn að meiri. Sagan mun dæma þessa aðgerð en þá verður féð farið fyrir lítið í vasa þeirra sem ekki þurfa á ríkisaðstoð að halda.