143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:15]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég býst við að sá sem hér stendur og hv. þingmaður verði seint sammála í þessu máli og reyndar mörgum öðrum þar sem ólík sýn liggur til grundvallar því hvað gera þurfi.

Ég kom inn á það í fyrra andsvari að fráfarandi ríkisstjórn hefði ekki haft þessa sýn. Hún vildi ekki gera það sem við erum að gera og hefur talið þetta óframkvæmanlegt. Við sögðum alla tíð að þetta væri hægt. Við sýndum fram á það með þeim frumvörpum sem hér voru lögð fram og eru nú til umfjöllunar og komin til lokaafgreiðslu. Þetta er jákvæð efnahagsaðgerð. Teikn eru um að þetta skili miklu.

Við getum þó verið sammála um það að ef hér verður of mikil þensla verði erfiðara að halda þeim frábæra árangri að vera með verðbólgu í 2,3% núna þriðja mánuðinn í röð sem ekki hefur gerst síðan árið 2002, ef ég man rétt. Það er býsna góður árangur. Ég held að við eigum að vera frekar bjartsýn og tala jákvætt til þjóðarinnar og um efnahagslífið um hvað geti gerst í staðinn fyrir að vera með stöðugt svartsýnisraus.