143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:41]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Peningar, hvaða nafni sem þeir nefnast, eru bara mælikvarði, leið til að mæla undirliggjandi efnahag. Og hvað ætlum við að gera í peningastefnunni? Við ætlum að halda áfram að gera það sama og við höfum verið að gera, að bæta undirliggjandi efnahag. Þar með sýnir mælikvarðinn betri niðurstöðu. Það er nefnilega ekki hægt að breyta efnahagslífinu bara með því að breyta mælikvarðanum. Og sem betur fer sjáum við að það sem við höfum verið að gera er að virka.

Eins og ég gat um áðan er verðbólga nú í annað skiptið komin undir viðmiðunarmörk Seðlabankans og í fyrsta skipti frá því að viðmiðunarmörkin voru tekin upp hefur hún haldist þar í nokkra mánuði. Hagvöxtur er samt verulegur og meiri en hann hefur verið í mörg ár á Íslandi. Kaupmáttur er fyrir vikið að aukast. Líklega munum við horfa fram á mestu kaupmáttaraukningu með íslenska krónu í tíu ár, reyndar mestu kaupmáttaraukningu í Evrópu. Um leið sjáum við að atvinnuleysi heldur áfram að minnka á Íslandi.

Á sama tíma takast margar Evrópuþjóðir á við hreint vonlausa stöðu í hinni svokölluðu evrukrísu þar sem sífellt vaxandi atvinnuleysi — líklega það mesta sem það hefur nokkurn tímann verið frá upptöku evrunnar — helst í hendur við efnahagslega stöðnun og jafnvel í sumum tilvikum verðbólgu. Þannig að svarið við spurningu hv. þingmanns um hvað við ætlum að gera í peningastefnunni er: Við ætlum að gera meira af því sama og halda áfram að ná árangri.