143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er hæstv. forsætisráðherra að gera grín að okkur? Við erum að fara að samþykkja aðgerðir sem eiga að kosta tugi milljarða kr. í gegnum ríkissjóð og það á bara að halda áfram með það sama í peningastefnunni. Veit hæstv. forsætisráðherra þegar hann talar um að gera það sama að við erum á bak við gjaldeyrishöft? Er það það sem hann er að tala um, að halda áfram að næra þau og rækta?

Það er einfaldlega þannig að allir sem hafa komið að þessum málum segja okkur það skýrt að ekki verður við núverandi aðstæður unað. Við núverandi aðstæður og óbreytta peningastefnu verða gjaldeyrishöftin ekki afnumin. Hæstv. forsætisráðherra er að senda þessi skilaboð inn í framtíðina: Við ætlum að láta ykkur fá ófjármagnaðan 80 milljarða kr. reikning og við ætlum ekki að breyta neinu í peningastefnunni. (Forseti hringir.)Við ætlum bara að halda áfram á sömu braut. Ja, fallegt er það, virðulegi forseti. Hið sama mun endurtaka sig aftur og aftur ef forsætisráðherra, í þeim heimi sem hann býr, fær að ráða. (Forseti hringir.)

Ég er andsnúin þessari stefnu og ég vona að hæstv. forsætisráðherra ætli að bjóða okkur upp á eitthvað betra en þetta til lengri tíma.