143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að koma í ræðu þó svo að í henni væri ærinn slatti af dylgjum og býsna óhefðbundnum ummælum af landsföður að vera, fyrir utan þetta venjulega sem við þekkjum, að menn hafi unnið gegn hagsmunum þjóðarinnar og gengið erinda erlendra kröfuhafa, við erum orðin svo vön þeim söng. Mér þykir athyglisvert að hann bætti í og sagði að hér í landinu væru stjórnmálamenn sem vildu svelta menn og að hér í landinu væru stjórnmálamenn sem vildu hafa heimilin í skuldafangelsi. Þetta var sagt úr þessum ræðustóli af hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar.

Ég ætla að láta nægja í þessari umferð tvær spurningar til hæstv. forsætisráðherra. Sú fyrri er: Hefur hæstv. forsætisráðherra aldrei haft fyrir því að lesa t.d. skýrsluna um endurreisn viðskiptabankanna sem lögð var fram á Alþingi í mars 2011? Hefur hæstv. forsætisráðherra aldrei haft fyrir því að ræða við neinn af þeim sérfræðingum, þ.e. bankamenn, lögmenn og ráðgjafa innlenda eða erlenda, sem komu fyrir hönd Fjármálaeftirlitsins og íslenska ríkisins að þeirri óhemju flóknu og vandasömu aðgerð sem uppgjörið milli gömlu og nýju bankanna var og samningar þar um? Það er óhjákvæmilegt, herra forseti, að spyrja þessarar spurningar því að hæstv. forsætisráðherra talar af fullkominni fáfræði um það sem þarna var undir og það sem þarna gerðist, heldur fram staðleysum um þetta mál trekk í trekk.

Í öðru lagi: Hefur hæstv. forsætisráðherra ekki áttað sig á því að skattstofninn sem hann talar um að fyrri ríkisstjórn hafi vanrækt og ekki hirt um að leggja á, þ.e. þrotabúin sem skattandlag, var ekki til sem slíkur á árinu 2009, 2010 og 2011? Það er í raun fyrst á árinu 2012, (Forseti hringir.) þegar líða tekur á það ár, að fyrst fer að komast sæmilega skýr mynd á og nokkurn veginn efnahagsreikningur fyrir þessi bú? Veit hæstv. forsætisráðherra það ekki eða (Forseti hringir.) er hann svo ósvífinn að halda því fram gegn betri vitund að það hefði verið hægt að leggja skatta á þessi bú strax frá hruni þeirra?