143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:48]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kannast vel við þá skýrslu sem hv. þingmaður veifaði. Það kemur einmitt fram í þeirri skýrslu að menn hafi ráðist í það að friðmælast við kröfuhafana, talið mikilvægt að koma til móts við þá, þeir mættu ekki vera of pirraðir. Svo hafa þessi mál skýrst betur upp á síðkastið með birtingu gagna og skjala sem tengdust þessari vinnu.

Ég geri ekki lítið úr því að auðvitað var vandasamt og flókið verk að skilja að bankana og stofna nýjan banka. Það voru mjög skiptar skoðanir um hvaða leið ætti að fara, hvaða pólitísku stefnu ætti að fylgja og hvaða megindrættir ættu þar að ráða för. Við framsóknarmenn tjáðum okkur mikið um það og bentum á ágallana á því sem verið var að gera. Einn slíkur ágalli var að færa myntkörfulánin yfir í nýju bankana, þar með talið yfir í ríkisbankann, áður en í ljós kæmi hvort þau væru lögmæt. Við vöruðum við því. Það var ekki hlustað á það. Fyrrverandi viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon, taldi að það hefði kostað ríkið 100 milljarða. Ég veit ekki hvort það er rétt.

Hvað varðar hins vegar að þessi slitabú hafi ekki verið til sem skattstofn þá geri ég ekkert lítið úr því heldur að það tók mjög langan tíma að skipta þessum fyrirtækjum upp. Við kvörtuðum oft undan því hversu langan tíma það tæki og hvað það virtist ganga erfiðlega. Auðvitað er ekki hægt að leggja á skatt ef menn geta ekki reiknað hann, en menn verða þá að vinna vel og skipulega að hlutunum og gera það á sem skemmstum tíma.