143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að viðurkenna að það sem hann sagði hér áðan um að fyrri ríkisstjórn hefði orðið af 150 milljörðum með því að hefjast ekki handa um að skattleggja búin strax 2009 eða 2010, sem hefði væntanlega þurft til þess, var brandari og ekki illa meint. Það voru sem sagt ekki innstæður fyrir því, það var ekki hægt. Það er hárrétt.

Herra forseti. Ég mun hér á eftir í stuttri ræðu, eins stuttri ræðu og ég get með tilliti til aðstæðna, fara aðeins yfir þetta með samningana og uppgjörið milli gömlu og nýju bankanna vegna þess að það verður að gera. Það er ekki hægt að skilja umræðuna á þingi eftir í þingtíðindunum þegar svona hlutum hefur verið haldið fram gegn staðreyndum mála án þess að bera hönd fyrir höfuð sannleikans, þar á meðal að láta ekki hæstv. forsætisráðherra komast upp með það að eigna pólitískum andstæðingum sínum þeim til álitshnekkis að hans mati hluti sem voru ekki á þeirra valdi heldur voru á verksviði Fjármálaeftirlitsins, þar sem Fjármálaeftirlitið fór með völdin, þar sem Fjármálaeftirlitið tók ákvarðanirnar, þar sem (Forseti hringir.) Fjármálaeftirlitið studdist við tvö virt erlend endurskoðunar- og lögfræðifyrirtæki sér til ráðgjafar. Nei, það á að vera vondi maðurinn hér sem er samt sem áður sökudólgurinn.