143. löggjafarþing — 116. fundur,  15. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við skjáskot sem ég hef séð af vefsíðunni sem umsækjendur þurfa að fara á til að skrá sig og sækja um umræddar skuldaniðurfellingar þurfa umsækjendur réttilega að veita samþykki fyrir því að veita mjög víðtæka heimild til upplýsingasöfnunar sem heimilar yfirvöldum að skoða öll fjárhagsmál þeirra, sem er gott og vel þegar umsækjandi samþykkir það, með upplýstu samþykki. Ég velti fyrir mér hvers vegna hæstv. forsætisráðherra telur nauðsyn að skoða gögn annarra en umsækjenda sjálfra til að meta áhrif þessara aðgerða gagnvart umsækjendum.