143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

framhaldsskólar.

380. mál
[21:37]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Frumvarpið felur í sér breytingar á gildandi lögum um framhaldsskóla sem sett voru árið 2008.

Frumvarp þetta er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Það hefur að geyma tillögur um breytingu á ákvæðum gildandi laga að því er varðar rétt náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof, viðurkenningu á húsnæði einkarekinna framhaldsskóla, gjaldtökuheimild vegna rafrænna námsgagna og afhendingu byggingarlóða undir framhaldsskólabyggingar án kvaða eða gjalda og tímabundna heimild framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum auk innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi.

Við smíði á upphaflegum frumvarpsdrögum var haft samráð við þá aðila er áttu fulltrúa í nefnd er samdi frumvarp til laga um vinnustaðanám. Jafnframt var haft samráð við öll starfsgreinaráð sem starfa á grundvelli 24. og 25. gr. laga um framhaldsskóla, nr. 92/2008. Enn fremur var haft samráð við alla framhaldsskóla er bjóða upp á starfsnám.

Frumvarp þetta hefur síðan þá tekið breytingum og hefur nú að geyma framangreindar tillögur um breytingu á ákvæðum gildandi laga. Haft var samráð við Kennarasamband Íslands um það ákvæði í frumvarpinu er lýtur að rétti náms- og starfsráðgjafa til að sækja um launuð námsorlof. Einnig er í frumvarpinu lagt til, að höfðu samráði við Félag íslenskra bókaútgefenda, að skólum verði, með sérstöku leyfi ráðherra, heimilað í tilraunaskyni að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Þá er lagt til, að höfðu samráði við ríkislögmann, að mælt verði fyrir um að lóðir undir framhaldsskóla skulu sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda.

Í frumvarpi þessu er lagt til að lögum um framhaldsskóla verði breytt svo sem fram kemur í frumvarpstexta.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu eru þær að lagt er til í 1. gr. þess að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um þau launuðu námsorlof sem þar eru veitt.

Þá er lagt til í 3. gr. frumvarpsins að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Gert er ráð fyrir því að ráðherra veiti skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma bundið við tilteknar námsgreinar. Um frekari útfærslu þess yrði nánar kveðið á í reglugerð.

Einnig er lagt til að kennsla skuli fara fram í viðurkenndu skólahúsnæði sem uppfylli lög og reglugerðir þar að lútandi, samanber 2. gr. frumvarpsins. Þessi breyting er lögð til með hliðsjón af ákvæðum laga og reglugerða um opinbert eftirlit með húsnæði þar sem atvinnustarfsemi fer fram en ráðuneytið hefur ekki haft sérstakt eftirlit með húsnæði einkaskóla á framhaldsskólastigi umfram lögbundið eftirlit opinberra eftirlitsstofnana.

Þá er lögð til í 4. gr. sú orðalagsbreyting að kveðið verði á um það að lóðir undir framhaldsskóla skuli sveitarfélög leggja til án kvaða eða gjalda. Í núgildandi lögum er mælt fyrir um að lóðir skuli lagðar til án endurgjalds. Verður þannig horfið til þess orðalags sem var í sambærilegu ákvæði eldri laga, nr. 80/1996, enda verður ekki séð af frumvarpi til núgildandi laga um framhaldsskóla og öðrum lögskýringargögnum að vilji löggjafans hafi staðið til þess að gera þá breytingu að ríkið skyldi framvegis greiða gatnagerðargjöld af umræddum lóðum.

Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði til bráðabirgða V í lögunum um heimildir framhaldsskóla til innheimtu efnisgjalda af nemendum gildi áfram tímabundið, eða út skólaárið 2015–2016.

Í 6. gr. frumvarps þessa er lagt til að ákvæði til bráðabirgða VI, sem heimilar framhaldsskólum innheimtu gjalda í kvöldskóla og fjarnámi að hámarki 7.500 kr. fyrir hverja námseiningu, verði framlengt tímabundið og gildi út skólaárið 2015–2016.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu er m.a. lagt til í 1. gr. þess að náms- og starfsráðgjöfum í framhaldsskólum verði veittur réttur til að sækja um þau launuðu námsorlof sem þar eru veitt. Telja verður að staða þeirra hafi ekki fylgst að í lögum og kjarasamningum þegar litið er til réttar félagsmanna Kennarasambands Íslands í framhaldsskólum til að sækja um launuð námsorlof. Ekki er gert ráð fyrir því að sú breyting hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð vegna fjölgunar námsorlofa.

Hvað varðar 3. gr. frumvarpsins hefur rafrænt námsefni smám saman verið að ryðja sér til rúms í framhaldsskólum hér á landi. Hér er því lagt til að skólum verði með sérstöku leyfi ráðherra heimilað að innheimta gjald fyrir rafrænt efni sem þeir ákveða að nýta í kennslu. Gert er ráð fyrir því að ráðherra veiti skólum slíka heimild í tilraunaskyni í takmarkaðan tíma bundið við tilteknar námsgreinar.

Með framangreindri breytingu er þess vænst að fjölbreytni í útgáfu rafræns námsefnis muni aukast til muna og verð á útgefnu námsefni muni lækka með hagnýtingu og nýrri tækni. Þar með opnast nemum greiður aðgangur að fjölbreyttu og nútímalegu námsefni á lægra verði, þeim og skólastarfinu til hagsbóta.

Virðulegi forseti. Mér hafa borist spurnir af því að það verði skoðað í meðferð þessa máls í nefnd að leggja til þær breytingar að fella út greinar frá og með 1. gr. til 5. gr. þannig að einungis standi eftir gjaldtökuheimildirnar tvær sem snúa að kvöldnáminu og efnisgjaldinu. Ég er fyrir mitt leyti fullkomlega sáttur við það ef það verður niðurstaða nefndarinnar eftir yfirferð hennar á þessu máli.

Ég legg það til, virðulegi forseti, að að umræðu lokinni verði málinu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.