143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

gjaldeyrismál.

593. mál
[21:50]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með síðari breytingum, varðandi arð og viðurlagaákvæði.

Nefndin fékk ábendingar frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem kom með frumvarpið til nefndarinnar. Nefndin fékk gesti 13. maí og fjallaði um málið og ákvað að flytja málið fyrir þinginu og er einhuga um það.

Frumvarpið má finna á þskj. 1113 og vísa ég til þess þar sem ég mun aðeins rekja helstu efnisatriði.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðum laga um gjaldeyrismál. Fyrri breytingin varðar annars vegar skýringu á hugtakinu arður samkvæmt lögunum og hins vegar er nánari tilvísun til þess hvað fellur undir hugtakið samningsbundin afborgun í skilningi ákvæðisins. Seinni breytingin varðar heimild laganna til þess að refsa lögaðilum fyrir brot gegn lögunum. Markmiðið með breytingunni er að taka af öll tvímæli um að heimilt sé að gera lögaðila refsingu fyrir brot á lögunum eða reglum settum með stoð í þeim. Með frumvarpinu er ætlunin að breyta skilgreiningu hugtaksins arður í skilningi laga um gjaldeyrismál.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið ráðuneytisins að mjög brýnt sé að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi og leggur til að það verði samþykkt.