143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[22:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar, sem er skipaður auk mér Björt Ólafsdóttur. Þetta er nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, nr. 74/2012, frá 26. júní, með síðari breytingum.

Veiðigjöld og álagning þeirra hafa lengi verið þrætuepli en hin langa umræða um þau hefur þó fært okkur á þann stað að um helstu grunnatriði er vonandi að skapast meiri sátt. Eitt þeirra er að sanngjörn veiðigjöld frá sjávarútveginum skuli renna í sameiginlega sjóði þjóðarinnar.

Frumvarpið sem hér um ræðir er til eins árs og byggist á stefnu sem fyrri stjórnvöld lögðu grunn að um veiðigjöld og auðlindarentu. Meginatriði frumvarpsins er áfangi að frekari útfærslu á stofni og aðferðafræði við útreikning veiðigjalda þannig að miðað er við svokallaða afkomustuðla í stað þorskígilda. Aðferðin og útreikningarnir voru unnir af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og veiðigjaldsnefnd. Aðferðafræðin er skref í rétta átt að mati 1. minni hluta en þó er alveg ljóst að þetta skref er aðeins eitt skref á þeirri leið. Álagning veiðigjalda þarf að vera sanngjörn og grunnurinn að gjaldsetningunni þarf að vera gegnsær, skýr og sem einfaldastur og byggjast á rauntímaupplýsingum. Upp á það hefur vantað en í frumvarpinu er lögð til nokkur bót á. Enn er mikil vinna fyrir höndum sem kallar á nýjustu gögn á hverjum tíma sem forsendu útreikninga og álagningar. Halda þarf áfram þeirri vinnu ef menn komast að þeirri niðurstöðu að byggja álagninguna á núverandi aðferðafræði, þ.e. að notast við afkomutölur og niðurstöður Hagstofu Íslands sem fram koma í skýrslu hennar. Sú leið hefur þann meginókost að unnið er með tveggja ára gömul gögn. 1. minni hluti minnir á það álit Hagstofu Íslands að sú samantekt eða tölfræði var aldrei hugsuð sem skattstofn til álagningar veiðigjalda né annara gjalda, hvorki í þessari atvinnugrein né öðrum.

Fyrsti minni hluti er þeirrar skoðunar að til að álagning veiðigjalda sé sanngjörn og gegnsæ þurfi að notast við gögn sem eru nærtækari í tíma og lýsa stöðu fyrirtækja betur. Í því sambandi bendir 1. minni hluti á að hægt er að nota aðra og betri aðferð sem byggist á rauntímaupplýsingum í skilum sjávarútvegsfyrirtækja til ríkisskattstjóra. Með þeirri aðferð er strax tekið tillit til sveiflna, bæði til hækkunar og lækkunar. 1. minni hluti telur að í frekari vinnu ráðuneytisins og veiðigjaldsnefndar, svo og samráðsnefndar með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi eigi að skoða gaumgæfilega á næstu mánuðum kosti þessarar aðferðar og galla ef einhverjir eru.

Í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar er hnykkt á því ákvæði sem meiri hluti atvinnuveganefndar lagði til á síðasta kjörtímabili varðandi tímabundna afslætti vegna kvótakaupa síðustu ára fyrir gildistöku laganna. Afslættirnir áttu að gagnast mest litlum og meðalstórum útgerðum í krókaaflamarkskerfinu með því að kveða skýrar á um að þeir væru eingöngu hugsaðir vegna kaupa á aflaheimildum á Íslandi á tilteknu árabili, eins og fram kom í breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar við 3. umr. málsins á sínum tíma.

Jafnframt er í breytingartillögunni hnykkt á því að breytingin á útreikningi veiðigjalda er aðeins til eins árs, vegna þess að boðað hefur verið frumvarp til frekari breytinga af ráðherra, sem 1. minni hluti hvetur til að unnið verði í nánu samstarfi við samráðsnefnd allra þingflokka, og með því freistað að skapa meiri sátt um aðferðafræðina þó svo að áfram verði vafalaust ágreiningur og skiptar skoðanir um hvað sé hóflegt veiðigjald.

Í breytingartillögu meiri hlutans er jafnframt lagt til að veiðigjald af rækju verði fellt niður sem 1. minni hluti telur réttlætismál enda afkoma í veiðum og vinnslu rækju í miklum mínus. Sama á við um veiðar á kolmunna en tillaga meiri hlutans er að lækka veiðigjaldið á kolmunna um helming.

Undir þetta skrifa Kristján L. Möller, framsögumaður nefndarálits, og Björt Ólafsdóttir.

Hæstv. forseti. Þetta er sameiginlegt minnihlutaálit okkar tveggja í atvinnuveganefnd og þess vegna ætla ég að virða þá reglu sem mér finnst alltaf eigi að hafa í heiðri þegar um sameiginlegt nefndarálit er að ræða að framsögumaður hafi ekki frekari ræðu um sínar skoðanir þar á eftir. Ég tek þó skýrt fram, virðulegi forseti, að það væri alveg tilefni til þess að ræða um ýmsa þætti hvað þetta varðar.

Ég vil að lokum þakka öllum nefndarmönnum í atvinnuveganefnd fyrir gott samstarf. Þó svo að það séu mjög skiptar skoðanir, kannski aðallega um skilgreiningu á því hvað sé hóflegt veiðigjald, hefur vinnan verið góð og afrakstur af því sést í breytingartillögum og því nefndaráliti og öðru sem liggur fyrir í máli þessu.