143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Björt Ólafsdóttur fyrir ágætt erindi, ágæta ræðu. Henni finnst þetta falleg hugmyndafræði. Ég vil þá spyrja hana hvort hún gæti hugsað sér svipað kerfi til dæmis fyrir bakarí, ríkisbakarí, þar sem við mundum ákveða verð á snúðum út frá svona fallegri hugmyndafræði? Ég vil spyrja hana hvort hún kannist við svona kerfi í Sovétríkjunum þar sem svona kerfi var í gangi lengi vel.

Hún segir að gögnin séu gömul, reyndar eru þau eitthvað uppreiknuð, það er reynt að nálgast eitthvað, en þau eru frá 2012 og þetta verður alltaf gamalt. Þetta er nefnilega ekki falleg hugmyndafræði, hún er alltaf eftir á, alltaf. Það sem hv. þingmaður talaði kannski minnst um er markaðurinn, það er endapródúktið, það er það hvar fiskurinn endar. Hann endar á markaði einhvers staðar. Það er verið að selja alla daga á mismunandi verðum, alla daga. Það er dálítið erfitt að meta það. Það getur orðið verðfall, stórkostlegt verðfall, af einhverjum ástæðum sem við getum ekki séð fyrir, eða það getur orðið mikil hækkun á endanlegri framleiðslu sjávarútvegsins. Þá breytast allar þessar forsendur yfir nótt. Við erum að reyna að setja á þetta gjöld til að mæla þetta.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um skuldirnar sem eru notaðar þarna til að draga frá. Finnst henni eðlilegt að hægt sé að draga frá skuldir sem voru notaðar til að kaupa kvóta á meðan aðrir keyptu kvóta fyrir eigið fé og fá ekki að draga frá það sem þeir hugsanlega tóku að láni annars staðar eða það sem þeir lögðu fram sem eigið fé til að kaupa þennan kvóta?