143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:06]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Fyrst aðeins með þessa fallegu hugmyndafræði. Ef hv. þingmaður hefði lagt eyrun vel við hefði hann heyrt að ég var einmitt að gagnrýna þessa hugmyndafræði þó að hún hljómaði ágætlega og virtist ágæt við fyrstu sýn. Ég var að segja að hún virðist ganga illa í praxís, hún gerir það. Ég held því að við séum alveg á sama stað með það, ég og hv. þingmaður. Ég var einmitt að gagnrýna hvernig hún virkar. En ég skil vel að hún sé aðlaðandi í eyrum fólks. Ég get vel skilið það, en vandamálið er bara að hún virkar ekki nógu vel.

Einmitt út af þessu. Við segjum ekkert bakaranum að hann eigi að taka ákveðið mikið af vínarbrauðinu sínu og borga okkur í skatta og svo aðeins meira af fransbrauðinu, það er ekki þannig.

Hv. þingmaður spurði um skuldirnar. Jú, mér finnst í fyrsta lagi óþolandi að við þingmenn sem erum að setja lög, og þessar skuldir liggja þarna undir og þessi gjöld, að við fáum ekki að vita hvernig í málum liggur. Ég get ekki tjáð mig um þær út af því að ég veit ekki neitt um þær. Ég hef ekki fengið að sjá gögn um þær. Ég vil ekki sjá gögn um þær til að hengja einn eða neinn fyrir að hann skuldi, heldur til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um gjöld í sjávarútvegi. Það er okkar hlutverk.