143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[23:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég skal skerpa á þessari hugmyndafræði með skuldirnar. Það var hugsað þannig að þeir sem hefðu keypt kvóta fyrir lán og skulduðu þess vegna ættu að geta dregið það lán frá. Það sem ég spurði um: Er það réttlátt og sanngjarnt gagnvart öðrum sem höfðu keypt kvóta sömuleiðis en notað til þess eigið fé? Þeir gátu ekki dregið frá sitt eigið fé sem þeir notuðu til þess. Þetta var kannski til að skerpa á þeirri hugsun.

Ég vil síðan spyrja hv. þingmann að því sem er í gangi núna. Það er verið að lækka gjöldin af því menn þykjast hafa komist að því að markaðsverð sé að lækka, þá væntanlega einhverjar vikur aftur í tímann, þeir vita alla vega ekki hvað gerist á morgun eða hinn. Það er verið að lækka gjöldin, en jafnframt treysta menn á auknar veiðar.

Finnst hv. þingmanni það réttmætt að lækka gjöldin enn frekar og treysta á að hægt sé að veiða meira af loðnu eða makríl, eða hvað það nú er? Eru menn ekki komnir ansi langt í þessari skipulagningu ofan frá — sovétkerfið — ég skil núna að það var kaldhæðni hjá hv. þingmanni þegar hann sagði að það væri fallegt kerfi, kannski féll ég fyrir því. Finnst hv. þingmanni það vera réttlátt að lækka gjöldin frekar á grundvelli lélegra markaðsútlits en jafnframt að treysta því að menn veiði meira sem er líka ákveðin forsenda sem hefur í sér ákveðna óvissu?