143. löggjafarþing — 117. fundur,  15. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[23:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Jóns Gunnarssonar en get ekki látið hjá líða að segja að það getur vel verið að það sé bara málefnalegri minni hluti í nefndinni að þessu sinni sem geri það að verkum.

Að öllu gamni slepptu, virðulegi forseti, skrifa ég undir nefndarálitið með fyrirvara eins og kom fram hjá framsögumanni nefndarinnar, hv. formanni nefndarinnar, Jóni Gunnarssyni, og er ekki með sérnefndarálit vegna þess að margar breytingar þar eru lagfæringar til að skapa aukinn sveigjanleika í því sem við getum kallað pott 2, sem er tekið út fyrir aflahlutdeildarkerfið og er þar til ráðstöfunar til ýmissa aðgerða, t.d. línuívilnun, strandveiðar, sem teknar voru upp á síðasta kjörtímabili, bætur fyrir rækju og skel í Breiðafirði, byggðakvóti og annað.

Þarna er sem sagt, sem er eitt af meginatriðum frumvarpsins, verið að fella þetta úr lögunum og sett í vald hæstv. ráðherra að úthluta því fyrir hvert ár. Ég get alveg verið hreinskilinn, virðulegi forseti, að mér leist ekki á það í byrjun að það væri sett þannig inn að það væri eingöngu háð því hvernig ráðherra mundi meðhöndla þetta. Þess vegna fagna ég mjög þeirri breytingartillögu, sem nefndin varð ásátt um, að ráðherra skuli leggja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi um tillögu sína hvernig eigi að skipta þeirri hlutdeild í það sem ég gerði hér að umtalsefni áðan. Ég tel að það sé miklu betri leið. Við höfum þá aðgang þings og þingnefndar að því og ráðherra leggi fram þriggja ára áætlun, sem líka er til bóta, vegna þess að ársúthlutun, t.d. á byggðakvóta, svo gott sem það er, er ekki þannig að hún geti skapað festu fyrir því að menn geti til dæmis í minni byggðarlögum startað fiskvinnslu vegna þess að menn vita ekki hvað þeir fá árið eftir. Þetta er með sex ára tímabili en lagt fram eins og hér er fjallað um.

Jafnframt kemur fram í nefndarálitinu þar sem stutt er við orð hæstv. ráðherra — sem ég vænti að fá kannski að heyra í á eftir, af því að við erum að gera þá breytingu núna og að sjálfsögðu skapast ekki tími fyrir 8. eða 9. september því þá er kvótaárið hafið — að koma með svona þingsályktunartillögu og hefur yfirlýsing verið gefin um það að engar stórvægilegar breytingar verði gerðar á þeim úthlutunum eins og þær eru núna nema að tekin eru ákveðin tonn frá til þess að mæta byggðarlögum sem eru í vanda um þessar mundir. Ég nefni Djúpavog, Þingeyri og Húsavík, síðan er bætt inn í í meðförum Byggðastofnunar Hrísey og Breiðdalsvík, ef ég man rétt.

Þarna verður meira svigrúm fyrir ráðherra og Alþingi að bregðast við slíkum vanda strax en eins og hér hefur komið fram er ekki hægt að bregðast við þeim vanda núna á þessu fiskveiðiári vegna þess að það er einfaldlega ekkert til til að úthluta til þeirra svæða.

Þetta er kannski meginforsenda þess að auka sveigjanleikann sem gefur okkur ráðrúm til að bregðast við og þess vegna tel ég það til bóta í þeim breytingartillögum sem hér eru að ráðherra skuli leggja þingsályktunartillögu fyrir þingið.

Menn hafa kallað þetta frumvarp rækjufrumvarpið vegna þess að það snerist aðallega um að kvótasetja rækju í hlutföllunum 70 til þeirra sem höfðu aflahlutdeild áður en veiðar voru gefnar frjálsar með reglugerð, og 30 til þeirra sem hafa veitt á þeim frjálsu árum, og það var megintilgangur þess frumvarps. En þetta er, eins og við erum farin að tala um það núna, breyting á lögum um stjórn fiskveiða, vegna þess að þessar breytingartillögur, t.d. sú sem ég var að ræða áðan, svo og ýmsar aðrar eru kannski bráðabirgðaákvæðahreinsun, að taka út úr lögunum bráðabirgðaákvæði sem fallin eru úr gildi, og voru eðlilega bráðabirgðaákvæði, að fella þau út.

Í meðförum nefndarinnar um rækjumálið voru skiptar skoðanir um það. Ég leyni því ekki og sagði það strax við 1. umr. þess máls að ég teldi það af og frá, eins og ætlunin var, að breyta þessu á miðju fiskveiðiári. Það er alveg sama hvort það er þetta eða annað, ég held að allar svona breytingar eigi að taka gildi við upphaf kvótaárs nema einhver sérstök ástæða sé fyrir einhverjum atriðum, eins og við erum að gera hér núna með færslu á aflamarki úr krókaaflamarkskerfinu upp í stóra kerfið til að skapa svigrúm fyrir ufsa og ýsu, eins og ég mun koma að betur á eftir.

Með breytingu á lögunum núna um stjórn fiskveiða er farið inn í nokkrar greinar og hnykkt á þeim. Ég vil leyfa mér að halda, virðulegi forseti, að dálítið langt sé síðan allir nefndarmenn skrifi upp á eitt nefndarálit, þó svo að þrír nefndarmenn hafi fyrirvara.

Niðurstaðan hvað varðar rækju var skoðun mín sú að það ætti að vera frjálst út þetta fiskveiðiár og á tímabili var ég orðinn þeirrar skoðunar að það ætti að vera frjálst á næsta fiskveiðiári líka og byggði þá skoðun mína á þeim orðum hæstv. ráðherra, sem hefur boðað það að fiskveiðistjórnarlögin verði endurskoðuð og þar leitað í smiðju svokallaðra sáttanefnda til að fara svolítið eftir þeirri leiðsögn sem þar kom fram, og það finnst mér mjög til góðs. Vegna þess að ég veit að hæstv. ráðherra er að hlusta á þessa ræðu hvet ég ráðherra til að hafa miklu meira samráð um þær breytingar sem verið er að gera. Eins og komið hefur fram í kvöld, bæði með veiðigjöldin og eins með breytingu á stjórn fiskveiða, finnst mér svífa hér yfir salnum miklu, miklu meiri sáttahugur en áður, þó svo að okkur greini á um ákveðin atriði, eins og t.d. upphæð veiðigjalda o.s.frv. En mikill ókostur er við það þegar verið er að vinna með tveggja ára gömul gögn, ég ætla ekki að lengja þessa umræðu með því en vísa í ræðu mína.

Ég hvet til þess að meira samráð verði en eins og ég segi, niðurstaðan varð sú að leggja til það sem kemur fram í frumvarpinu að rækjan verði aftur kvótasett en í hlutföllunum 50% á móti 50% í staðinn fyrir 70% á móti 30%. Það tel ég vera ákveðna málamiðlun og ítreka og segi alveg sérstaklega: Þetta var ekki lagabreyting, þetta var reglugerðarbreyting. Þáverandi ráðherra boðaði lagafrumvarp sem ekki kom fram, þannig að í raun og veru var það í hendi ráðherra einfaldlega með reglugerðarbreytingu að kvótasetja rækjuna aftur og setja hana þá inn þess vegna til kvóta til aflahlutdeildarhafa sem höfðu það áður en hinar frjálsu veiðar voru leyfðar.

Þetta er ákveðin málamiðlun um að skipta því magni í þessum hlutföllum og svo eru önnur atriði sem hafa komið hér með hvað þetta varðar. Ég verð að segja alveg eins að mjög margt er flókið og erfitt að fara í gegnum. Ég hef undir höndum excel-skjal sem mikið er rætt um varðandi fiskveiðar og álagningu veiðigjalda og sýnir hvernig þetta var áður en veiðar voru gefnar frjálsar, hvernig þetta hefði komið út ef hlutdeildin hefði verið 70:30 og hvernig það kemur út þegar þessu er skipt jafnt. Ég held að það komi byggðarlögum til dæmis vestur á Ísafirði mjög vel, ég sé það af þessum gögnum, þar sem rækjuvinnsla er svo mikil eins og hún er. Rækjuvinnsla er ekki orðin eftir á mörgum stöðum, en hún er í mínum heimabæ, Siglufirði, svo ég tali nú ekki um þá frábæru verksmiðju sem Kítín-verksmiðjan er sem vinnur mikið hátækniefni úr rækjuskelinni þannig að henni er ekki lengur hent og veldur ekki lengur umhverfisspjöllum.

Af öðrum þáttum sem hér koma fram er stóra atriðið þetta með litlu hlutdeildina, ef ég má orða það svo, að hún fari í pott. Ég vísa til þess sem ég sagði áðan um það og hef svo sem ekki miklu við það að bæta.

Þá kem ég að þeirri breytingu sem gerð er varðandi aflahlutdeild krókaaflamarksbáta. Fram kemur að síðan þá hafi veiðiheimildir á t.d. ufsa fallið niður ónýttar á hverju fiskveiðiári, allt frá 300 að 3.000 tonnum, hvorki meira né minna, sem lokast hafa inni og verið óveidd og að meðaltali um 1.300 tonn á hverju fiskveiðiári. Þarna erum við að sleppa því að veiða þann afla, krókaaflamarksbátarnir ná honum ekki og við töpum miklum tekjum vegna þess að við höfum ekki náð úthlutuðu aflamagni. Þarna erum við að gera þá breytingu að hægt sé að skipta á ufsa upp í stóra kerfið og að krókaaflamarksbátarnir fái það sem sárlega vantar til þess útgerðarflokks, þ.e. ýsu í staðinn.

Virðulegi forseti. Ráðherra fær heimild til að gera þetta í reglugerð og ég tel að það sé til mikilla bóta vegna þess að á sama hátt og smábátar, krókaaflamarksbátar, geta ekki veitt allan ufsa þá hafa stóru kerfin ekki veitt alla ýsu, bara einfaldlega vegna þess að þeir bátar ná dýpra og ýsan er meira á grunnslóð. Þarna virðist því vera á ferðinni breyting sem er til bóta hjá krókaaflamarksbátunum og skipunum.

Sú breyting er sett þarna inn en það er alveg kristaltært að við erum ekki að opna neitt fyrir það að stóra kerfið geti keypt upp krókaaflamarksbáta. Það munum við aldrei samþykkja. Við munum aldrei standa að því að krókaaflamarksbátum geti fækkað vegna þess að stóra kerfið kaupi meira. Við viljum hafa fjölbreytileika í kerfinu eins og það er. Ég minni líka á að margir bátar í krókaaflamarkskerfinu hafa verið stækkaðir og eru orðnir virkilega flott skip, eiginlega svona nútímavertíðarbátar.

Virðulegi forseti. Nefndin gekk frá sameiginlegum skilningi með ráðherra um að til viðbótar þeim 1.100 tonnum sem ráðherra hefur þegar kynnt á heimasíðu ráðuneytis síns að verði til aukinnar ráðstöfunar fyrir Byggðastofnun til að mæta áföllum í tilteknum sjávarbyggðum bætist að lágmarki við 700 tonn sem Byggðastofnun hafi aðgang að á næsta fiskveiðiári. Þetta er mjög mikilvægt og með kvóta Byggðastofnunar, þeim 1.800 tonnum sem hefur verið úthlutað, ég hef sagt það áður, tel ég að við séum að stíga mjög jákvætt skref vegna þess að þeim kvóta er úthlutað til lengri tíma en eins árs.

Ég hef aldrei á tiltölulega löngum þingmannsferli mínum séð áætlun þar sem þessi kvóti er notaður til að auka svo aflaheimildir til að skapa vinnslu í fiskvinnsluhúsi á Raufarhöfn í allt að ellefu mánuði á ári og tólfti mánuðurinn er þá ekki notaður vegna þess að hann er sumarleyfismánuður.

Ef þetta gengur eftir, sem við vonum, og við bætast bætur til Djúpavogs, Þingeyrar, Hríseyjar, Breiðdalsvíkur, því miður eiga ef til vill fleiri byggðir að bætast við, verður þetta til þess að hjálpa til að koma í veg fyrir mikið hrun, og sveigjanleikinn er þá sá á næsta fiskveiðiári að ekki er öllu úthlutað í byrjun og þá hefur ráðherra ákveðin tonn upp á að hlaupa ef skyndilega koma upp atriði eins og gerst hefur í umræddum byggðarlögum.

Virðulegi forseti. Í fréttum í kvöld í ríkissjónvarpinu var frétt frá Djúpavogi þar sem fylgt var eftir fólki fara úr rútu upp í flugvél á Egilsstöðum, og fylgt eftir þegar það lenti í Reykjavík og keyrði til Grindavíkur. Fólkið var að skoða ný híbýli, nýja vinnustaði, skóla og fleira í Grindavík. Þetta er það fólk sem þarf að flytja frá Djúpavogi en fram kom í viðtölum við fólkið að það vildi allt áfram vera á Djúpavogi, en þarf nú að bregða búi með miklu höggi fyrir það sveitarfélag og flytja til Grindavíkur í rauninni til að elta kvótann, fiskinn, fiskvinnsluna til að hafa vinnu fyrir sig og sína.

Þetta var dapurleg frétt, þetta var dapurleg mynd. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að þetta er það allra daprasta sem ég sé í sambandi við fiskveiðistjórnarkerfið og framkvæmd á sjávarútvegsstefnu okkar. Þetta var sorgleg frétt og svakaleg. Þetta eru hlutir sem við alþingismenn þurfum að fara í gegnum og skoða; hvað er til ráða, hvernig lögum við þetta? Einn gesturinn sem kom til atvinnuveganefndar ræddi við okkur um útfærslu á veiðigjöldum, sem ég hef margoft rætt um áður á Alþingi og á öðrum stöðum, ég ætla ekki að fara yfir það, en sá gestur var einnig með þá hugmynd að það ætti að skoða að fiskvinnslur fengju að vera handhafar aflahlutdeildar. Frystihúsið yrði ekki flutt í burtu frá viðkomandi stöðum.

Mér fannst þetta mjög athyglisverð hugmynd, hún er að sjálfsögðu ekki ný, en þau dæmi sem ég gerði að umtalsefni og sjónvarpsfréttin í kvöld hefur verið mér mikið umhugsunarefni. Hvað er til ráða til að lagfæra hluti í fiskveiðistjórnarkerfinu þannig að þetta geti ekki gerst?

Virðulegi forseti. Í umræðunni um erfiðleikana á þessum þremur stöðum þar sem eitt fyrirtæki er að hætta rekstri og færa allt á einn stað, vafalaust í nafni hagræðingar meðal annars, hefur verið sagt: Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að svona gerist? Það er verkefni okkar við endurskoðun fiskveiðistjórnarlaga.

Það var líka mjög athyglisverður dómur og mér kom hann satt að segja á óvart, dómur héraðsdóms um sölu á ákveðnu fyrirtæki og því sem er að gerast í Hafnarfirði, en eins og ég segi, niðurstaðan er ekki komin. Þetta var héraðsdómur með einum dómara. Og þó að ég viti ekki um eða hafi ekki tekið eftir því geri ég ráð fyrir að því máli verði vísað til Hæstaréttar og þar verði málið afgreitt með endanlegum dómi Hæstaréttar sem við munum alltaf lúta. Þetta hefur líka verið umtalsefni í nefndinni.

Virðulegi forseti. Hér eru þættir inni sem hugnast mér og ég gat alveg tekið undir þá, þó að ég ítreki þann fyrirvara sem ég hafði í byrjun varðandi það að færa þetta vald allt til ráðherra. Ráðherrar koma og fara og maður er ekki alltaf viss um hvaða ráðherra maður hefur í hverju ráðuneyti. Þess vegna er það mjög mikilvægt atriði sem ég nefndi áðan um aðkomu Alþingis að málum. Þetta skulu vera mín orð um breytingar á fiskveiðistjórnarlögum að þessu sinni. Það er árlegur viðburður að við afgreiðum eitthvað hér á síðasta degi eða síðustu dögum þingsins.

Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, þó að mér þyki það mjög leiðinlegt að enda ræðu mína á því, að ég óska eftir því við hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála svo og alla aðra ráðherra að þeir komi fyrr með frumvörp til Alþingis þannig að okkur gefist meiri tími til að vinna þau svo að við séum ekki að vinna þau á næturfundum og klára mál í blýspretti í nefndinni, eins og með veiðigjöldin þar sem fjölmenn landssamtök, t.d. ASÍ og vélstjórar, sögðust bara einfaldlega ekki geta gefið umsögn um þau frumvörp vegna þess að vinnubrögð þeirra væru þannig að hafa þyrfti samband við marga aðila úti um land til að búa til umsögn sem send yrði til nefndarinnar í nafni viðkomandi samtaka.

Þess vegna tek ég undir það sem hæstv. forseti Alþingis sagði í setningarræðu sinni þar sem hann beindi þeim orðum enn einu sinni, enn einu sinni varð forseti að gera það, til ráðherra og ríkisstjórnar að koma fyrr inn með frumvörp. Því skulu lokaorð mín verða þau á jákvæðum nótum að ég trúi því og treysti og vona að framvegis og á næsta ári munum við fá öll svona frumvörp snemma inn þannig að okkur gefist nægur tími til að vinna þau á eðlilegan hátt.