143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[10:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Í framhaldi af atkvæðagreiðslu um þetta mál við 2. umr. þar sem ég boðaði breytingartillögu við 3. umr. vil ég fylgja úr hlaði þeirri breytingartillögu sem hér hefur verið dreift á þskj. 1145.

Hún felur í sér mjög einfalda breytingu. Eins og menn muna hét ríkisstjórnin aðilum vinnumarkaðarins því, og þjóðinni allri, 21. desember að gjaldskrárhækkanir sem hún stóð fyrir í tengslum við gerð fjárlaga og voru umfram verðbólgumarkmið, sem er gríðarlegur ábyrgðarhluti af nokkurri ríkisstjórn, yrðu lækkaðar undir verðbólgumarkmið Seðlabankans, úr 3% hækkun í 2%. Þessi lækkun um 1 prósentustig kom hins vegar ekki til framkvæmda í upphafi árs. Það sem kom til framkvæmda í upphafi árs voru þvert á móti aðrar hækkanir á bilinu 11–21% á komugjöldum í heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu almennt.

Síðan leið og beið og frumvarp um lækkunina úr 3% í 2% var ekki afgreitt úr ríkisstjórn fyrr en undir lok janúar. Það er lagt fram á Alþingi í febrúar. Það er ekki mælt fyrir því fyrr en síðla marsmánaðar þrátt fyrir að ítrekað hafi verið boðað að það yrði tekið fram fyrir önnur mál og síðan velktist það í nefnd í vel á annan mánuð og er enn ekki afgreitt.

Nefndarmeirihlutinn gerði í meðförum málsins fyrir 2. umr. þá breytingartillögu að stytta gildistímann. Sleifarlag ríkisstjórnarinnar við þessa framkvæmd olli því að í upphaflegu frumvarpi var gert ráð fyrir gildistöku þess 1. mars og meiri hlutinn gekk enn lengra í niðurlægingarátt með því að stytta gildistímann enn frekar. Samkvæmt frumvarpinu, eins og það stendur nú eftir 2. umr., eiga lækkanirnar ekki að taka gildi fyrr en 1. júní. Það þýðir að búið er að hlunnfara almenning í landinu um nærri helminginn af þeirri lækkun sem fólki var heitið sem framlagi ríkisstjórnarinnar. Verðbreytingaráhrif til lækkunar verða sem því nemur minni.

Breytingartillagan sem hér liggur fyrir felur einfaldlega í sér að í stað 1% hækkunar verði hún þá 2% á seinni hluta ársins. Ríkisstjórnin var búin að gera áætlun um að mæta kjarasamningum með þeim hætti. Við erum ekki að tala um lækkun á gjöldum, heldur einfaldlega að draga til baka hluta ósanngjarnrar og órökstuddrar hækkunar ríkisstjórnarinnar á þessum gjöldum fyrir áramót og láta þá lækkun verða myndarlegri en hún er nú vegna heimatilbúinna vandræða stjórnarflokkanna og ríkisstjórnarinnar.

Það er ekki í lagi að meiri hlutinn geti með verkleysi sínu og hyskni komið ríkisstjórnarflokkunum undan því að efna skýr fyrirheit sem eru hluti af kjarasamningum. Þá er náttúrlega illa komið ef verkleysi ríkisstjórnarflokkanna eitt og sér dugar til þess að ríkið efni ekki sinn hluta af þríhliða samkomulagi á vinnumarkaði.

Það hefur mikið verið rætt í þessu máli að það sé gagnrýnivert, og það er allt rétt um það, að þessar gjaldalækkanir snúi bara að afmörkuðum þáttum, eldsneyti, áfengi og tóbaki, en þarna er ekki að finna gjaldahækkanirnar sem ríkisstjórnin stóð fyrir í heilsugæslunni um áramót. Við reyndum að útfæra breytingartillögu til þess að draga það til baka. Það er hins vegar ekki fær leið vegna þess að þær hækkanir voru ekki fjárlagaákveðnar, heldur ákvarðaðar af ráðherra sjálfum í gjaldskrá settri af heilbrigðisráðherra sjálfum á grundvelli lagaákvæða um kostnaðarþátttöku. Okkur þótti í sjálfu sér heldur mikið í lagt að fara að taka af ráðherra valdið til þess að ákveða gjaldskrár með lagaákvæðum eða takmarka það með einhverjum sérstökum hætti þó að ríkisstjórnin hafi kosið að misfara með það vald um síðustu áramót, almenningi í óhag og þvert á gefin fyrirheit.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa framsögu fyrir breytingartillögunni lengri, en í henni felst að stjórnarmeirihlutanum gefst færi á að efna það fyrirheit sem aðilum vinnumarkaðarins var gefið þannig að raunveruleg áhrif til lækkunar á gjaldskrám verði í samræmi við þau fyrirheit sem gefin voru 21. desember og þar með ríkisstjórnarmeirihlutanum hjálpað að komast undan þeirri svikaherferð sem hann er í gagnvart aðilum vinnumarkaðarins í öllum samningum sem gerðir hafa verið frá því að þessi ríkisstjórn kom til valda.