143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[10:14]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Tilefni þess að ég fer í andsvar við hv. þm. Árna Pál Árnason er útfærslan á þeim breytingartillögum sem hann leggur hér fram. Það má segja að það hafi verið tvenns konar efnisleg gagnrýni við það frumvarp sem hér er til umræðu, annars vegar þetta sem þingmaðurinn nefndi fyrst og lýtur að því að gildistíma lækkananna er frestað til 1. júní og þar af leiðandi kemur ekki lækkunin að fullu eins og fyrirheit voru um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í desember, eins og kunnugt er. Hinn liður gagnrýninnar sem þingmaðurinn nefndi aðeins í lok síns máls laut að því hvaða gjöld væri verið að lækka, gjöld á áfengi og tóbak og ýmsa umhverfisskatta sem allir hafa samfélagslegan blæ, en hækkun á komugjöldum í heilsugæslu, innritunargjöldum í háskóla o.s.frv. var látin standa.

Þingmaðurinn nefndi að það hefði reynst illfær leið og mig langar að biðja hv. þingmann að greina aðeins nánar frá því. Ég hafði talið að ef farið er í breytingartillögu við frumvarp af þessu tagi hefði þurft að birtast í henni sú pólitíska sýn að það væri eðlilegra að lækka önnur gjöld en nákvæmlega þessi. Lækkun á áfengi og tóbaki nýtist bara þeim sem nýta sér áfengi og tóbak, en til dæmis lækkun á innritunargjöldum í háskóla og í heilsugæslu mundi áreiðanlega nýtast vel stórum hópi fólks sem ekki hefur allt of mikið milli handanna.