143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[10:20]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdina. Ég er í grunninn sammála honum. Mér þótti sárast af öllu að sjá þessa hækkun í heilsugæslunni, komugjöldunum, allt upp í 21,8% þar sem mest var, algjörlega að ófyrirsynju og við þær aðstæður þegar verið var að fara fram á það að lágtekjufólk sætti sig við 2,8% kauphækkun, að þá skyldi ríkisvaldið ganga á undan með þessu fordæmi og sérstaklega þegar haft er í huga að þessi ríkisstjórn lagði lykkju á leið sína til að berjast á hæl og hnakka gegn því að lágtekjufólk fengi nokkrar ívilnanir í skattbreytingunum rétt fyrir áramót.

Það var barist gegn því með öllum ráðum að fólk með undir 250 þús. kr. fengi nokkra lækkun skatta til að tryggja fólki með 800 þús. kr. og yfir skattalækkun upp á 4.200 kr. Það er hin dapurlega sögulega arfleifð ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Því miður er snúið fyrir löggjafann að finna leiðir til að vinda ofan af einbeittum brotavilja framkvæmdarvaldsins þegar hann er svo ákveðinn og skýr sem raun ber vitni í þessu máli.