143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[10:24]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2012 frá minni hluta fjárlaganefndar. Á fundi fjárlaganefndar þann 5. maí afgreiddi meiri hluti nefndarinnar frumvarp til lokafjárlaga 2012 til 2. umr. Það kom á óvart þar sem ekki kom fram í dagskrá nefndarinnar að það skyldi gert og drög álitsins höfðu ekki áður verið kynnt. Á fundinum neitaði formaður ósk minni hlutans um að fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytisins yrðu kallaðir á vinnufund til að fara yfir helstu breytingar sem gerðar eru í frumvarpinu á fluttum fjárheimildum, en eins og kunnugt er skipta fjárlagaliðir og viðfangsefni fjárlaga nokkrum hundruðum. Að mati minni hlutans hefur fjárlaganefnd Alþingis því ekki enn unnið þá vinnu sem er nauðsynleg til að unnt sé að afgreiða frumvarpið úr nefndinni.

Minni hlutinn bendir á að gamall fjárlagahalli er afskrifaður hjá Landspítalanum, lögreglustjóranum á Suðurnesjum og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins án þess að formlegar verklagsreglur séu til sem heimila slíka aðgerð og í athugasemdum frumvarpsins er talið að sú aðgerð hefði ekki fordæmisgildi í framtíðinni. Minni hlutinn bendir jafnframt á að með lokafjárlögum 2012 er ríkisreikningur 2012 samþykktur. Hann er áritaður af fjármálaráðherra og endurskoðaður af ríkisendurskoðanda. Þessi breyting er gerð eftir að gengið var frá ríkisreikningi 2012 og myndast því misræmi í höfuðstól fyrrgreindra stofnana milli lokafjárlaga og ríkisreiknings. Því telur minni hlutinn að eðlilegt hefði verið að ganga frá þessum færslum í lokafjárlögum 2013 til samræmis við ríkisreikning 2013.

Þá leggur minni hlutinn áherslu á að stofnanir ríkisins njóti jafnræðis sé tekin ákvörðun um að fella niður halla fyrri ára.

Minni hlutinn telur ekki ásættanlegt að Alþingi samþykki lokafjárlög fyrir árið 2012 fyrr en fjárlaganefnd hefur farið yfir frumvarpið með tilhlýðilegum hætti og leggst því gegn því að frumvarpið verði samþykkt fyrr en úr því hefur verið bætt.

Undir þetta nefndarálit skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Bjarkey Gunnarsdóttir og Brynhildur Pétursdóttir.

Virðulegi forseti. Vegna þessara athugasemda legg ég til að frumvarpið fari til nefndar á milli umræðna.