143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[10:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að ræða þá aðgerð að skera hala af þremur ríkisstofnunum. Ég hef alveg skilning á að það sé gert. Þessar stofnanir voru komnar í vanda og Landspítalinn fór vissulega mjög skuldsettur inn í hrunið. Allar hafa þessar stofnanir snúið við blaðinu og sýnt fram á góðan rekstur þótt það séu reyndar blikur á lofti varðandi Landspítalann sem við þurfum að fylgjast með.

Rekstur heilsugæslunnar á Akureyri er undir aðeins öðrum formerkjum, þar hefur bærinn greitt með heilsugæslunni og veit ég ekki annað en að þar sé mjög góður rekstur. Sú heilsugæsla fékk til dæmis ekki jafnlaunabætur fyrir árið 2013 eins og aðrar heilsugæslur þannig að það er til staðar launamunur sem er ekki ásættanlegt.

Þá vil ég líka benda á að Háskólinn á Akureyri hefur greitt niður sinn skuldahala. Er það vel en það má spyrja sig: Hefði stofnun sem hefði haldið sig innan fjárheimilda og sýnt fram á viðsnúning í rekstri getað gert þá kröfu að fá halann skorinn af? Það tekur mjög á fyrir ríkisstofnun að halda sig innan fjárheimilda um leið og verið er að greiða niður skuld.

Ég nefni bara þessi tvö dæmi af því að ég þekki þau en auðvitað á þetta við um fjölmargar aðrar stofnanir. Það hlýtur eiginlega að vera meginhlutverk okkar að tryggja jafnræði. Það er mjög erfitt, en það er það sem við verðum að leitast við að gera.

Ég geri ekki athugasemdir við halaklippingarnar í þessum tilfellum þótt ég taki undir það sem hér hefur komið fram í máli framsögumanna, það verða þá að vera mjög skýrar reglur einmitt til að tryggja jafnræðið, að það séu ekki einhverjar geðþóttaákvarðanir.

Að öðru leyti tek ég undir það sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir sagði, við hefðum viljað vinna þetta betur og fá fleiri spurningum svarað. Ég geri mér grein fyrir að málið var komið í tímaþröng en ég gagnrýni líka að lokafjárlög komu allt of seint fram. Vonandi getum við bætt úr því á næsta ári.