143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[11:52]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um fjármálastöðugleikaráð frá efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndarálitið ásamt breytingartillögu er að finna á þskj. 1146 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir skjalið frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Markmið frumvarpsins kemur fram í 1. gr. þess og er það að efla og varðveita fjármálastöðugleika, auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins og sporna við uppsöfnun kerfisáhættu. Frumvarpið mælir fyrir um stofnun fjármálastöðugleikaráðs sem í sitja sá ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins en þeir tveir síðastnefndu eiga einnig sæti í kerfisáhættunefnd og gegna hlutverki formanns og varaformanns. Hlutverk kerfisáhættunefndar er að undirbúa þau umfjöllunarefni sem tekin eru fyrir á fundum fjármálastöðugleikaráðs og halda ráðinu upplýstu um stöðu og horfur á fjármálamarkaði til þess að ráðið geti sinnt hlutverki sínu sem virkur samráðsvettvangur. Þá fylgist nefndin með virkni og samspili stýritækja Seðlabankans og Fjármálaeftirlits sem geta haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Fjármálastöðugleikaráð er hins vegar ekki formlegt opinbert stjórnvald. Ráðið tekur því engar stjórnvaldsákvarðanir og stjórnsýslulög gilda ekki um starfsemi ráðsins. Í ráðinu sitja aðilar sem í krafti sinna embætta hafa vald til töku stjórnvaldsákvarðana á þeim sviðum. Mikilvægt er að ljóst sé að ekki er verið að setja á fót nýtt stjórnvald með frumvarpinu heldur er aðeins um formlegan samstarfsvettvang að ræða.

Nefndin fjallaði nokkuð um það hvort í frumvarpinu ætti að skilgreina sérstök viðbúnaðarstig sem fjármálastöðugleikaráð mundi þá nota til afmörkunar á því hvers kyns ástand væri til umfjöllunar hverju sinni. Nefndin bendir á að í starfsreglum sínum getur fjármálastöðugleikaráð skilgreint tiltekið ástand og hvaða viðbragða sé rétt að grípa til í samræmi við það hverju sinni. Hins vegar telur nefndin að skylda ráðsins til að skilgreina viðbúnaðarstig komi ekki nægilega skýrt fram í frumvarpstextanum. Í því ljósi leggur nefndin til þá breytingu á 2. mgr. 6. gr. að þar verði tekið fram að ráðinu beri að skilgreina það viðbúnaðarstig sem við á.

Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins fundar fjármálastöðugleikaráð minnst þrisvar sinnum á ári og oftar ef þörf krefur. Samkvæmt 7. gr. fundar kerfisáhættunefnd að minnsta kosti sex sinnum á ári. Nefndin fjallaði um tíðni funda. Ljóst er að ekki er eðlilegt að fjármálastöðugleikaráð fundi sjaldnar en þrisvar á ári. Ef einhver ráðsmanna telur þörf á því er hægt að funda oftar. Nefndin leggur til að fundum kerfisáhættunefndar verði fækkað í fjóra. Samkvæmt 7. gr. geta aðeins nefndarmenn aðildarstofnana fjármálastöðugleikaráðs óskað eftir fundi í kerfisáhættunefnd utan reglulegra funda. Sá sérfræðingur í málefnum fjármálamarkaðar og hagfræði sem ráðherra skipar án tilnefningar getur því ekki óskað eftir fundi í nefndinni. Nefndin leggur til að ákvæðinu verði breytt þannig að allir nefndarmenn geti óskað eftir fundi í kerfisáhættunefnd ef þeir telja þörf á. Ekki er ástæða til að umræddur sérfræðingur verði þar undanskilinn enda fullgildur nefndarmaður.

Í 10. gr. er fjallað um gagnsæi sem ríkja þarf um störf fjármálastöðugleikaráðs. Þar kemur fram í 1. mgr. að fjármálastöðugleikaráð skuli gera opinberlega grein fyrir umræðum á fundum sínum að jafnaði innan sex mánaða. Í nefndinni kom fram að ráðinu væri veitt of mikið svigrúm til þess að gera grein fyrir fundum sínum á opinberum vettvangi. Nefndin tekur undir þetta og bendir á að tafir á birtingu kunna að hafa áhrif á hegðun aðila á markaði. Er það mat nefndarinnar að eðlilegra væri að tímasetning birtingar verði í fastari skorðum og leggur til þá breytingu að gerð skuli opinberlega grein fyrir meginefni fundar ráðsins strax næsta dag líkt og tíðkast í Danmörku og Bandaríkjunum. Þess skal getið að ráðinu ber ekki að senda frá sér upplýsingar ef ætla má að þær geti haft neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika. Þá leggur nefndin einnig til að fundargerðir ráðsins skuli birtar í heild innan mánaðar frá fundi.

Nefndin leggur einnig til þá breytingartillögu að í 3. mgr. 6. gr. verði kveðið á um kynningu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á aðgerðum og ráðstöfunum sem fjármálastöðugleikaráð leggur til þegar sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði skapast. Með því er tryggt að fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi sé kunnugt um að sérstakt ástand ríki og til hvaða aðgerða stjórnvöld hyggist grípa. Þá leggur nefndin til þá breytingu á 4. mgr. 10. gr. að kveðið verði á um að formenn stjórnmálaflokka á Alþingi, sem ekki eru jafnframt ráðherrar, skuli upplýstir með sama hætti og ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir nokkrum helstu efnisbreytingum sem nefndin gerði, en í nefndarálitinu er gerð nánari grein fyrir þeim. Að framansögðu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram koma í nefndarálitinu. Undir álitið rita þann 13. maí eftir taldir hv. þingmenn: Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Árni Páll Árnason, Guðmundur Steingrímsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Vilhjálmur Bjarnason. Ragnheiður Ríkharðsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.