143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[11:57]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að þetta mál sé komið hér til afgreiðslu. Undirbúningur þessa verkefnis hófst í efnahags- og viðskiptaráðherratíð minni og þá var hafist handa með grunn undir skýrslugerð um fjármálamarkaðinn og breytingar sem þyrftu að verða á honum. Var augljóst í kjölfar efnahagshruns að umgjörð fjármálastöðugleika og stjórnsýslu á því sviði hafði verið mjög ábótavant og mjög mikilvægt var að tryggja að betri yfirsýn fengist, annars vegar milli þeirra sem fara með heildareftirlit og eindaeftirlit Seðlabanka og Fjármálaeftirlits og svo líka hins pólitíska valds þannig að hið pólitíska vald fengi með ákveðnum hætti aðkomu að upplýsingum sem eftirlitsaðilarnir sjálfir hafa einir. Útfærsla frumvarpsins felur þetta í sér.

Ég gerði við meðferð málsins fyrir þinginu athugasemdir við það að hvergi var gert ráð fyrir aðkomu stjórnarandstöðu. Hún er hins vegar lykilatriði ef vel á að fara með fjármálastöðugleika. Fyrir það fyrsta verður það illmögulegt fyrir ríkisstjórn á hverjum tíma að koma fram með óvinsælar aðgerðir sem þörf er á vegna fjármálastöðugleika ef stjórnarandstaða er ekki upplýst um ástæður þessara óvinsælu aðgerða. Þá mun stjórnarandstaða ávallt mæla gegn hinum óvinsælu aðgerðum. Ef stjórnarandstaða er ekki upplýst um það neyðarástand eða þær vár sem að steðja er henni auðvitað vorkunn því að hún veit þá ekki betur.

Við sáum dæmi slíks í aðdraganda hruns. Það var óhjákvæmilegt að gera breytingar á frumvarpinu til að tryggja að bæði efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis yrði skrifuð inn í frumvarpið sem og samráð við formenn stjórnarandstöðuflokka. Við sáum í aðdraganda hruns að alvarlegt hættuástand skapaðist á fjármálamarkaði í aprílmánuði 2006 þegar íslenska bankakerfið var degi frá falli eftir því sem greinir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sú umfjöllun fól í sér fréttir fyrir forustusveit Samfylkingar þegar rannsóknarskýrslan birti sína niðurstöðu.

Það er algjörlega ótrúlegt þegar horft er til baka að forustusveit stærsta stjórnarandstöðuflokksins á þessum tíma hafi algjörlega verið haldið utan við upplýsingar um það að alvarleg vá hafi steðjað að fjármálakerfi landsins í aprílmánuði 2006. Þetta olli því síðan að stjórnmálaumræðan og kosningabaráttan fyrir kosningarnar 2007 var á algjörum villigötum. Umræðan — ég var nú sjálfur í mínu fyrsta framboði í þessum kosningum 2007 — fólst almennt í því að við værum bara hér með heilbrigt og gott fjármálakerfi. Það var hið almenna viðhorf, hið almenna stjórnmálaviðhorf.

Það er algjörlega ljóst að ef forusta stjórnarandstöðunnar hefði vitað af þeim viðsjám sem steðjuðu að íslensku fjármálakerfi í aprílmánuði 2006 hefði málefnaupplegg Samfylkingarinnar fyrir kosningarnar 2007 verið annars eðlis. Umræðan í kosningabaráttunni hefði verið með öðrum hætti og áherslur Samfylkingarinnar í stjórnarmyndun hefðu verið aðrar. Það er þess vegna sem skiptir svo miklu máli að læra af þessari reynslu. Stjórnarandstaða verður að vera efnislega upplýst um það sem miklu varðar.

Ég held að það sé mikilvægt að við munum að þetta á ekki bara við um fortíðina. Við erum til dæmis nú í þeirri stöðu að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa verið að tjá sig á undanförnum dögum um samning sem gerður hefur verið milli nýja Landsbankans og þrotabúsins um breytingar á Landsbankabréfinu sem okkur í stjórnarandstöðunni hafa ekki verið kynntar og við höfum ekki nokkrar forsendur til að tjá okkur um á hinum pólitíska vettvangi. Þannig að enn þann dag í dag er ríkisstjórnin að gera þessi mistök. Ég hef ítrekað kröfu um það í efnahags- og viðskiptanefnd að upplýsingar verði veittar um þessa þætti, en það er ekki í lagi að stór og mikilvæg mál, sem eru fjármálalega mikilvæg, séu einungis á vitorði forustumanna ríkisstjórnar, þeir telji sér síðan fært að tjá sig um þau holt og bolt í almennri umræðu án þess að hlutast sé til um það strax í upphafi að forusta stjórnarandstöðunnar sé upplýst um efni sömu mála. Það er engin eðlileg lýðræðisleg umræða.

Ég fagna því að þetta frumvarp, eins og ég segi, sé komið hér á ákvörðunarstig. Það sem við höfum skrifað inn í það, um samráðsskyldu við stjórnarandstöðu og efnahags- og viðskiptanefnd, er full ástæða til að sé lögfest, en ég bara minni á, í ljósi atburða síðustu daga og þeirra atburða sem ég er að vísa til, að ekki er nóg að skrifa þetta inn í lagabókstaf, verklag ríkisstjórnarinnar um samráð við stjórnarandstöðu verður að breytast og hún verður að nálgast stjórnarandstöðu á annan hátt ef vel á að fara í meðferð flókinna og mikilvægra mála sem varða fjármálastöðugleika og efnahagslega velferð þjóðarinnar til framtíðar.