143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

málefni innflytjenda.

517. mál
[12:14]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tala hér fyrir hönd minni hluta velferðarnefndar og nefndaráliti þess minni hluta við frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni innflytjenda.

Minni hlutinn leggst gegn efni frumvarpsins sem felur í sér óljós áform um sameiningu mikilvægra stjórnsýslustofnana. Með samþykki frumvarpsins felst sú stefnuyfirlýsing að Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofa og réttindagæslumenn fatlaðs fólks skuli sameina í eina stofnun. Minni hlutinn bendir á að slík sameining hefur ekki verið rædd á Alþingi eins og nauðsynlegt er að gera og því um ótímabært frumvarp að ræða. Ljóst er að ef sameina á mikilvægar stjórnsýslustofnanir í eina þarf að liggja þeirri sameiningu til grundvallar greining á þeim kostum og göllum sem fylgja slíkri sameiningu. Slík greining liggur ekki fyrir nú þegar mál sem gefur óhjákvæmilega fyrirheit um slíka sameiningu er til afgreiðslu þingsins.

Fjölmenningarsetur, Jafnréttisstofa og réttindagæslumenn fatlaðs fólks þjóna mjög ólíkum hópum samfélagsins og þjónusta þeirra er afar ólík. Starfsemi Fjölmenningarsetursins snýr að málefnum innflytjenda auk þjónustu við stjórnvöld, stofnanir, fyrirtæki og aðra varðandi ráðgjöf og upplýsingar í tengslum við málefni innflytjenda. Starfsemi Jafnréttisstofu snýr að jafnrétti kynjanna, stofnunin fer með eftirlit með framkvæmd laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sér um upplýsingastarfsemi og fræðslu til opinberra aðila og einkaaðila. Réttindagæslumenn fatlaðs fólks aftur á móti aðstoða fatlað fólk við að lifa sjálfstæðu lífi og til töku ákvarðana um eigið líf, hvaða þjónustu það eigi að fá og veita ráðgjöf. Störf þessara stofnana og réttindagæslumanna eru því afar ólík innbyrðis og umdeilanlegt er að þessar stofnanir eigi saman að því marki að hægt sé að sinna öllum þessum málaflokkum á fullnægjandi hátt með rekstri einnar stofnunar. Minni hlutinn bendir á að fara þurfi fram heildstætt mat á því hvort rétt sé að sameina jafnólíkar stofnanir og hér um ræðir. Óljós áform um sameiningu án heildstæðs mats á kostum og göllum er starfsemi framangreindra stofnana ekki til framdráttar og jafnframt óviðunandi að starfsemi Fjölmenningarseturs sé í jafnmikilli óvissu og frumvarpið ber með sér.

Undir þetta nefndarálit minni hlutans rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Guðbjartur Hannesson, Björt Ólafsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir.

Þessu til viðbótar vil ég fá að segja að þetta mál á sér langan aðdraganda hvað varðar Fjölmenningarsetrið, af því að frumvarpið fjallar eiginlega eingöngu um forstöðumann þar. Á sínum tíma var stofnuð nýbúamiðstöð sem staðsett var á Ísafirði en um það hafði flutt tillögu þáverandi og núverandi þingmaður, hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson. Sú stofnun þróaðist síðan á þessu svæði og það var ekki tilviljun að henni var valinn staður á Ísafirði vegna þess að á því svæði voru þá flestir innflytjendur og töluverð reynsla af þjónustu við innflytjendur.

Í framhaldi af því var miðstöðinni á síðasta kjörtímabili breytt í stofnun til þess að tryggja formfestuna í kringum hana. Hún er að vísu mjög lítil en af fenginni reynslu vildu menn tryggja að þessi stofnun, Fjölmenningarsetur, væri staðsett áfram fyrir vestan og gegndi áfram líku hlutverki og hefur verið hingað til og ef eitthvað væri þyrfti að efla starfsemina.

Nú er verið að tala um ráða þar forstöðumann aðeins til eins árs. Það hefur að vísu verið framlengt þarna einu sinni eða verið veitt heimild til þess að lengja starfstíma núverandi forstöðumanns án þess að framlengja tímann um fimm ár, en þarna er verið að bæta við heilu ári og rúmlega það. Ég tel enga ástæðu til þess, ég held að menn eigi bara að ráða í starfið til fimm ára. Breytingar á stofnanaumhverfinu geta orðið á þeim tíma og þá er það sjálfsagt úrlausnarefni að ganga frá kjörum viðkomandi forstöðumanns.

Það er líka mikilvægt að nefna að í þessu samhengi hefur verið umræða um hvort stofna ætti Mannréttindaskrifstofu Íslands og fella þar undir ýmis mál sem heyra undir innanríkisráðuneytið, þau mál sem við vorum að ræða hér áðan um stöðu hælisleitenda og slík mál. Mér finnst full ástæða til að skoða það áfram og vanda sig mjög vel við það. Að þessu sögðu ítreka ég að minni hlutinn leggst gegn þessu frumvarpi og telur enga ástæðu til að veita þessa heimild heldur sé eðlilegt að ráðningartími forstöðumanns verði samkvæmt eldri lögum.