143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri.

392. mál
[12:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um þetta mál.

Nefndin fjallaði um málið með hefðbundnum hætti, fékk til sín gesti og fór yfir umsagnir.

Efni þessa frumvarps er að draga úr tilkynningarskyldu vegna erlendra fjárfestinga sem hefur verið víðtæk hér, eða í raun altæk, og að nefnd um erlenda fjárfestingu verði lögð niður. Helsta tilefni frumvarpsins er rökstutt álit ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, frá því í febrúar sl., þar sem var komist að þeirri niðurstöðu að tilkynningarskylda laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri bryti gegn skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum, þ.e. að hún væri of víðtæk og óþarflega íþyngjandi, það stæðu ekki efnisrök fyrir því að viðhalda henni í óbreyttri mynd. Það má til sanns vegar færa þegar að því er gáð að fjárfestingar aðila á Evrópska efnahagssvæðinu og eftir atvikum innan OECD og að Færeyjum meðtöldum eru frjálsar fyrir utan sérstakar lögbundnar takmarkanir sem menn þekkja í sjávarútvegi o.s.frv. Það eru því kannski varla efni til, a.m.k. ekki gagnvart slíkum aðilum, að halda uppi sérstakri tilkynningarskyldu á öllum fjárfestingum í atvinnulífinu.

Eftirleiðis verður þá, samanber 2. gr. frumvarpsins, tilkynningarskylda aðeins virk á þeim sviðum þar sem slíkar sérstakar takmarkanir gilda. Nefndin ræddi hins vegar um það hvort ekki þyrfti að huga betur að því í hvaða stöðu stjórnvöld væru þá eftir slíka breytingu varðandi það að geta eftir sem áður fylgst með þróun erlendra fjárfestinga og nýtt sér rétt sinn til að grípa inn í, sem er til staðar, ef rök standa til. Ekki var talið skynsamlegt að reyna að viðhalda meiri tilkynningarskyldu eða útfæra á nýjan hátt einhverja tilkynningarskyldu þannig að menn væru fyrir fram að fá inn upplýsingar ef fjárfest væri í tilteknum kerfislega mikilvægum fyrirtækjum o.s.frv., heldur er farin sú leið í tengslum við þann neyðarhemil sem er að finna í b-lið 3. gr. frumvarpsins, og kemur í stað eldri ákvæða í lögunum, þar sem ráðherra getur gripið inn í og stöðvað hættulega eða óæskilega fjárfestingu þó að hún sé ekki bönnuð sérstaklega eða annars staðar með lögum.

Að mati meiri hlutans þarf sérstaklega að huga að því að fjárfesting í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum á mjög margt sameiginlegt með þeim þáttum sem meiningin er að ráðherra geti beitt sér gagnvart og tíundaðar eru í nefndum b-lið 3. gr., en það er sem sé til þess að stöðva fjárfestingu ef ætla má að hún ógni öryggi landsins eða gangi gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði eða ef upp koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegir eru til að verða viðvarandi og getur hann þá stöðvað slíka fjárfestingu o.s.frv.

Til þess að treysta þessa heimild enn frekar í sessi, samanber framansagt, leggur meiri hlutinn til þríþætta tillögu til breytinga. Það er í fyrsta lagi að nýrri málsgrein verði bætt við 12. gr. laganna þar sem kveðið verði á um heimild ráðherra til að stöðva erlenda fjárfestingu í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum þegar slík fjárfesting felur í sér kerfisáhættu. Í öðru lagi, og í tengslum við það, verði nýrri skilgreiningu bætt við 2. gr. laganna þar sem tekin verði upp efnislega skilgreining 8. töluliðar 2. gr. frumvarps til laga um fjármálastöðugleikaráð, samanber þskj. 765, 426. mál á þessu þingi, á kerfisáhættu. Það vill svo vel til, frú forseti, að þetta mál var akkúrat á dagskrá hér fyrir skemmstu á fundinum.

Í þriðja lagi verði sömuleiðis tekið skýrt fram að ráðherra hafi heimild til að stöðva erlenda fjárfestingu í kerfislega mikilvægum fyrirtækjum ef hún er talin geta skapað kerfisáhættu og þá á grundvelli ábendinga þar til bærra aðila. Með þar til bærum aðilum á nefndin við aðila eins og aðildarstofnanir fjármálatöðugleikaráðs, þ.e. Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið eða aðra sambærilega aðila. Af því leiðir að sjálfsögðu að það hvílir þá tiltekin frumkvæðisskylda á viðkomandi aðilum að gera ráðherra viðvart um fjárfestingar sem kunna að vera varhugaverðar, bæði í almennum skilningi laganna eða geta haft kerfisáhættu í för með sér, sérstaklega á sviði fjármálamarkaðarins. Það er mikilvægt að sú lögskýring fylgi hér með að nefndin leggur þann skilning í að með þessu sé hún ekki aðeins að bæta þessu sem slíku þarna inn heldur að tilgreina sérstaklega að þar til bærir aðilar, eftirlitsaðilar og aðrir slíkir sem í störfum sínum gætu komist á snoðir um vísbendingar um varhugaverða þróun varðandi fjárfestingar að þessu leyti, að það liggur þá í hlutarins eðli að á þeim hvílir ákveðin skylda til þess að flagga því máli við ráðherrann sem fer með heimildina, neyðarhemilinn.

Þetta skýrir breytingartillöguna sem gerð er svo grein fyrir í lok nefndarálitsins, og þannig breytt leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir þetta rita sá sem hér talar sem er framsögumaður, auk þess hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson formaður, með fyrirvara, Pétur H. Blöndal, Willum Þór Þórsson, Vilhjálmur Bjarnason, Líneik Anna Sævarsdóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir.