143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

smáþörungaverksmiðja Algalífs Iceland ehf. á Reykjanesi.

375. mál
[12:26]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um heimild til að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. um smáþörungaverksmiðju á Reykjanesi.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Reykjanesbæ, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Í frumvarpinu er kveðið á um heimild iðnaðar- og viðskiptaráðherra til að staðfesta fjárfestingarsamning við Algalíf Iceland ehf. frá 28. janúar 2014. Fram til 31. desember 2013 voru í gildi lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi sem var ætlað að tryggja að ferlið við gerð fjárfestingarsamninga af þessu tagi yrði styttra og einfaldara og í samræmi við ríkisstyrkjareglur EES-samningsins. Þar sem lögin eru ekki lengur í gildi er nauðsynlegt að leggja fram sérstakt frumvarp vegna samningsins við framangreint félag.

Algalíf Iceland ehf. var stofnað í ágúst 2012 og fyrirhugar að framleiða astaxanthin með því að rækta og þurrka örþörunga. Virka efnið í vörunni er andoxunarefni sem er notað í fæðubótarefni og vítamínblöndur auk þess að vera neytt í hylkjaformi. Fram kom fyrir nefndinni að framleiðsluvara félagsins félli utan gildissviðs EES-samningsins og því væri ekki þörf á að tilkynna fjárfestingarsamninginn Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Þá er til staðar sérstakt ákvæði þar sem mælt er fyrir um að ef í ljós kemur síðar að samningur sé talinn fela í sér ólögmæta ríkisaðstoð þá beri félagið fjárhagslega ábyrgð á því og eigi ekki skaðabótakröfu á hendur íslenska ríkinu.

Meginefni frumvarpsins snýr að ívilnunum á sköttum og opinberum gjöldum vegna byggingar og reksturs verksmiðjunnar, samanber 4. gr. Einnig er í frumvarpinu kveðið á um undanþágu félagsins frá ákveðnum lögum, samanber 3. gr. Félagið gerir ráð fyrir því að heildarfjárfesting nemi um 2 milljörðum kr. og unnin verði um 100–120 ársverk á byggingartíma verksmiðjunnar á árunum 2014–2016 og þegar reksturinn kemst á fullt skrið á árinu 2016 verði að jafnaði unnin um 30 ársverk hjá félaginu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn í atvinnuveganefnd, Ásmundur Friðriksson framsögumaður, Jón Gunnarsson formaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Björt Ólafsdóttir, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.

Ég þakka samstarfið í nefndinni um þetta mál og önnur mál sem þar voru til umfjöllunar og hlutu flest einróma niðurstöðu eins og hér greinir á frá.