143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fiskeldi.

319. mál
[12:36]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Páll Jóhann Pálsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti atvinnuveganefndar um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk marga gesti á sinn fund.

Helstu atriði frumvarpsins felast í því að einfalda stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi. Í frumvarpinu eru ýmis nýmæli sem er ætlað að stuðla að aukinni skilvirkni í eftirliti sem og stuðla að auknu öryggi og draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar.

Helstu breytingar á stjórnsýslu málaflokksins samkvæmt frumvarpinu eru að Matvælastofnun gefi út rekstrarleyfi og hafi eftirlit með fiskeldi en það hlutverk er á hendi Fiskistofu samkvæmt gildandi lögum.

Samkvæmt gildandi lögum gefa heilbrigðisnefndir sveitarfélaga út starfsleyfi til fiskeldisstöðva sem eru undir ákveðnum stærðarmörkum en Umhverfisstofnun veitir önnur starfsleyfi. Samkvæmt 15. gr. frumvarpsins verður Umhverfisstofnun falið að annast útgáfu allra starfsleyfa.

Í 4. gr. er kveðið á um að áður en rekstrarleyfi er gefið út skuli Matvælastofnun leita umsagnar Fiskistofu, Veiðimálastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar eins og nánar er tilgreint í ákvæðinu.

Í 13. gr. er nýmæli þess efnis að Matvælastofnun geti lagt á dagsektir ef rekstrarleyfishafi fer ekki að fyrirmælum hennar og einnig að stofnunin geti látið vinna ákveðin verk á kostnað rekstrarleyfishafa. Verði frumvarpið að lögum mun Matvælastofnun geta beitt sambærilegum þvingunarráðstöfunum og Umhverfisstofnun getur beitt á grundvelli laga um hollustuhætti og megnunarvarnir.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að tvær skilgreiningar bætist við 3. gr. laga um fiskeldi, annars vegar skilgreining á hugtakinu burðarþolsmat og hins vegar skilgreining á hugtakinu sjókvíaeldissvæði. Í burðarþolsmati felst mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi.

Því var haldið fram fyrir nefndinni að rök stæðu til þess að Fiskistofa sinnti áfram stjórnsýslu og ákvarðanatöku vegna ráðstafana sem væru teknar þegar leyfishafi í fiskeldi missti eldisfisk úr fiskeldisstöð, samanber 13. gr. laga um fiskeldi. Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að Fiskistofa fari áfram með þau verkefni sem kveðið er á um í 13. gr. laganna um veiðar fisks sem sleppur.

Í 5. gr. felst nýmæli sem er ætlað að stuðla að auknu öryggi og draga úr umhverfisáhrifum. Þar er til að mynda mælt fyrir um að í umsókn um rekstrarleyfi skuli koma fram að gæðakerfi fiskeldisstöðvar og eldisbúnaður standist kröfur reglugerðar um fiskeldi, einnig að burðarþolsmat fylgi umsókn.

Í 7. gr. er mælt fyrir um að kveðið skuli á um skyldu til erfðamerkinga í rekstrarleyfi þannig að unnt verði að rekja uppruna eldisfiska til ákveðinna eldisstöðva.

Nefndin leggur einnig til viðbót við greinina í þá veru að ráðherra sé skylt að setja reglugerð um utanáliggjandi merkingu á eldislaxi. Nefndin telur slíka merkingu stuðla að því að auðveldara verði að aðgreina eldislax frá villtum laxi. Með breytingartillögunni áréttar nefndin utanáliggjandi merkingu, svo sem uggaklippingu, og kveður sérstaklega á um skyldu ráðherra til að mæla fyrir um hana í reglugerð.

Í b-lið 9. gr. er að finna nýmæli þess efnis að umsækjandi um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis skuli leggja fram sönnun fyrir því að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu fyrir því tjóni sem geti hlotist af starfseminni.

Í 10. gr. er gert ráð fyrir að fiskeldisstöðvar skuli hefja starfsemi innan þriggja ára frá útgáfu rekstrarleyfis. Nefndin leggur því til að Matvælastofnun geti veitt undanþágu frá þriggja ára viðmiði ef leyfishafi sýnir fram á að málefnalegar ástæður búi að baki töfinni en þó skal stofnunin ekki veita lengri viðbótarfrest en 12 mánuði.

Í 12. gr. er lagt til að stofnaður verði umhverfissjóður sjókvíaeldis sem er fjármagnaður með árgjöldum rekstrarleyfishafa. Úr sjóðnum skal greiddur kostnaður vegna burðarþolsrannsókna, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn hans ákveður. Nefndin leggur til þrenns konar breytingar á 12. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að heimilt verði að veita veiðiréttarhafa styrk úr sjóðnum til að mæta kostnaði eða tekjumissi sem hann hefur orðið fyrir vegna tjóns sem er ekki hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar. Í öðru lagi er lagt til að einn stjórnarmaður bætist við í stjórn sjóðsins og skal hann tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga. Í þriðja lagi er lagt til að árlegt gjald í sjóðinn hækki úr 6 SDR í 12 SDR fyrir hvert tonn sem heimilt er að framleiða.

Nefndin leggur til nokkrar breytingar til viðbótar á frumvarpinu. Lagt er til að við frumvarpið bætist ný grein þar sem lögð er til viðbót við markmiðsgrein 1. gr. laga um fiskeldi í þá veru að þar verði vísað til þess að í sjókvíaeldi standist eldisbúnaður og framkvæmd ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir fiskeldismannvirki í sjó. Jafnframt er lagt til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði um breytingu á 1. mgr. 11. gr. þeirra laga í þá veru að hnykkja á því að sjókvíaeldisstöð standist ströngustu staðla sem eru fyrir hendi hvað varðar fiskeldismannvirki í sjó. Hér er einkum átt við norskan staðal NS 9415. Með þessum viðbótum er ætlunin að auka öryggi og draga úr umhverfisáhrifum fiskeldis.

Nefndin leggur til breytingu á 11. gr. frumvarpsins í þá veru að 3. mgr. 19. gr. laganna falli brott og því verði ekki heimild í lögunum til að flytja eldistegundir milli fiskeldisstöðva. Hyggist rekstrarleyfishafi rækta aðra tegund mun hann því þurfa að sækja um útgáfu nýs leyfis í samræmi við ákvæði laganna.

Líkt og framar er getið leggur nefndin til nokkrar breytingar á frumvarpinu sem lúta að því að styrkja enn frekar aukið öryggi í fiskeldi. Nefndin leggur til að ráðherra hefji sem fyrst heildarendurskoðun laga um fiskeldi enda hafa miklar framfarir orðið í fiskeldi hin síðari ár og nauðsynlegt er að löggjöf endurspegli þá þekkingu.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björt Ólafsdóttir og Þórunn Egilsdóttir rita undir álit þetta með fyrirvara.

Aðrir sem rita undir þetta álit eru Jón Gunnarsson formaður, Páll Jóhann Pálsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, með fyrirvara, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, með fyrirvara, Kristján L. Möller, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir, með fyrirvara.