143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

landsnet ferðaleiða.

122. mál
[12:54]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti hv. umhverfis- og samgöngunefndar um tillögu til þingsályktunar um landsnet ferðaleiða.

Sú tillaga var flutt af 1. flutningsmanni, hv. þm. Róberti Marshall, Björt Ólafsdóttur, Bryndísi Pétursdóttur, Guðmundi Steingrímssyni, Óttari Proppé og Páli Vali Björnssyni.

Tillagan gekk út á að innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra yrði falið að hefja saman vinnu við skipulagningu og kortlagningu leiða- og þjónustukerfis fyrir ferðamenn sem ferðast um landið fótgangandi, á reiðhjólum eða hestum þannig að til verði eitt samtengt landsnet ferðaleiða. Einnig verði lagt mat á hvort fært sé að skipuleggja og kortleggja ferðaleiðir fyrir fólk á sjókajökum eða gönguskíðum og fella slíkar ferðaleiðir inn í landsnet ferðaleiða sé talin þörf á því. Þeirri vinnu eigi að ljúka 1. janúar árið 2017.

Hv. umhverfis- og samgöngunefnd fjallaði um málið og fékk til sín ýmsa gesti og fjölmargar umsagnir.

Tilgangur tillögunnar er að stuðla að því að ráðist verði í skilgreiningu og skipulagningu ferðaleiða, samræmingu fyrirkomulags merkinga, afmörkun og skilgreiningu heita á leiðum og gerð númerakerfis fyrir allt landið. Ég held að flestum okkar sem eigum því að venjast að vera hér með vegakerfi númeruð og með heitum hafi orðið ljós þörfin á því að annars konar ferðaleiðir séu skilgreindar með svipuðum hætti.

Í greinargerð með tillögunni var sérstaklega talað um samráð og samstarf við fulltrúa ýmissa aðila, sem voru taldir upp í tillögunni. Það voru Samband íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðin, Ferðamálastofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Landssamtök hjólreiðamanna, Ungmennafélag Íslands, Landssamtök hestamannafélaga, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist, Kajakklúbburinn, gönguskíðafélög, landlæknisembættið, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Vatnajökulsþjóðgarður.

Bent var á það af Bændasamtökum Íslands að eðlilegt væri, þegar um væri að ræða jafn umfangsmikið verkefni sem snertir í mörgum tilvikum jarðir í einkaeigu og bújarðir, að haft yrði samráð við samtökin, ekki aðeins vegna undirbúnings verkefnisins heldur einnig við vinnuna sjálfa. Umhverfisnefnd tekur undir þau sjónarmið og telur að hafa skuli samráð við heimamenn á hverjum stað þegar ræddar eru hugmyndir um kortlagningu göngu- og reiðleiða um lönd þeirra og telur líka mikilvægt að vegna lögbundins hlutverks við kortagerð skuli Landmælingar Íslands hafa aðkomu að verkefninu.

Í stuttu máli sagt snýst þetta fyrst og fremst um vinnulag og þann vilja hv. umhverfis- og samgöngunefndar sem lýst er í nefndaráliti. Við eigum að sjálfsögðu von á því, verði þessi tillaga afgreidd, að þau ráðuneyti sem nefnd eru í tillögunni muni tryggja að slíkt samráð verði viðhaft við þessa vinnu. Það er tillaga umhverfis- og samgöngunefndar að tillagan verði samþykkt óbreytt, og ég tel ekki þörf á að hafa mörg orð um það en vænti þess að hún komi hér til afgreiðslu síðar í dag.