143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

varðveisla menningararfleifðar á stafrænu formi.

196. mál
[12:57]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi. Í tillögunni felst að mennta- og menningarmálaráðherra setji fram stefnu um varðveislu íslenskrar menningararfleifðar á stafrænu formi. Gert er ráð fyrir því að verkið verði unnið á næstu 10–20 árum. Markmið tillögunnar er annars vegar að koma í veg fyrir að menningarverðmæti glatist eða eyðileggist og hins vegar að auðvelda fólki aðgang að menningarverðmætum sem er að finna á stafrænu formi.

Nefndin telur mikilvægt að koma verkefninu í farveg hið fyrsta og leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið rita Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Páll Valur Björnsson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Svandís Svavarsdóttir og Vilhjálmur Árnason.