143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. 300 milljarðar áttu að koma frá ljótu hrægömmunum úti í heimi til að lækka skuldir heimilanna. Það sem við erum að sjá hér eru 72 milljarðar sem munu fara til heimilanna beint, og í gegnum ríkissjóð, þetta er af skattfé almennings og mun fara til heimilanna. Ég skal taka undir að hluti af því muni fara á staði þar sem fjármuna er þörf en allt of stór hluti fer á staði sem þurfa ekki á þessum fjármunum að halda, til þeirra sem eru svokallaðir efnamenn í samfélagi okkar sem þurfa ekki á skattfé almennings að halda til að leiðrétta skuldir sínar heldur eiga vel eignir á móti þeim.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að þegar við erum hér að fara að ganga til atkvæða um þetta mál óar mig við því að við séum að skrifa jafn stóran, óútfylltan tékka í kostnað til viðbótar þeim 72 milljörðum sem munu fara hipsumhaps. Enginn veit hvaða kostnaður mun leggjast á Íbúðalánasjóð, enginn veit hvað kostnaður mun hljótast af þessu að öðru leyti en við vitum hins vegar hver mun bera þann kostnað.

Það eru (Forseti hringir.) framtíðarkynslóðir og þeir sem eiga lífsafkomu sína undir ríkinu og velferðarkerfinu sem munu þurfa að greiða þann kostnað.