143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þökk sé vinnu minni hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd og ágætum gögnum sem okkur tókst að afla frá ríkisskattstjóra, fjármála- og efnahagsráðuneyti og fleiri aðilum, þá hefur verið að dragast upp sæmilega heildstæð mynd af því hvað þessi skuldapakki ríkisstjórnarinnar mun kosta. Því miður er sú tala sennilega öfugum megin við 200 milljarða kr. þegar bæði málin eru samantekin. Í beinum fjármunum úr ríkissjóði, í töpuðum skatttekjum ríkis og sveitarfélaga á næstu þremur árum og í gríðarlega miklum töpuðum skatttekjum ríkis og sveitarfélaga inn í framtíðina með minni séreignarsparnaði sem kemur skattaður til útgreiðslu.

Mikill viðbótarkostnaður mun falla til í almannatryggingakerfinu og hjá Íbúðalánasjóði og samtals er verðmiðinn því miður eitthvað af þessari stærðargráðu. Í staðinn fyrir 300 milljarða kr., sem áttu að koma af himnum ofan eða frá vondum hrægömmum í kosningaloforðum Framsóknarflokksins, er hér verið að setja yfir 200 milljarða kr. reikning á hið opinbera, ríkið og sveitarfélögin, og að stærstum hluta verða það börnin okkar og barnabörnin sem (Forseti hringir.) greiða þann reikning. Þetta er meingölluð og óréttlætanleg ráðstöfun á opinberu skattfé.