143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:53]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða gríðarlega stórt mál. Verið er að taka ákvörðun um að nýta almannafé með algjörlega nýjum hætti, dreifa því þannig að nokkrir þingmenn og varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa sagt að um sé að ræða óverjandi aðgerð, óskynsamlega aðgerð og óréttláta aðgerð.

Hér er vissulega verið að hjálpa þeim sem þurfa að hluta en ef 1 kr. fer til ríkasta fólksins í landinu, sem þarf ekki á því að halda, þá er þessi aðgerð vond. Þannig er það.

Hér er um að ræða skammsýni því að allar ákvarðanir og sérstaklega af þessari stærðargráðu þarf að meta til framtíðar.

Í leiðara Fréttablaðsins í dag segir að þetta hafi verið „lykill Framsóknarflokksins að Stjórnarráðinu“. Sami leiðarahöfundur segir ágætt að jafnvel tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins skilji í hvaða vegferð flokkurinn hefur verið dreginn.

Ég segi nei.