143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[13:56]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er alfarið gegn þessu máli og tek sérstaklega undir með hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, ég lít alls ekki þannig á að alþingiskosningar séu einhver allsherjarþjóðaratkvæðagreiðsla um öll möguleg og ómöguleg mál eða kosningaloforð sem flokkar henda fram í einhverjum kosningaham rétt fyrir kosningar, sumum hverjum illa eða lítið útfærðum.

Ég minni á að 75% kjósenda kusu ekki skuldaniðurfellingarleið Framsóknarflokksins. Ég veit ekki hvort kjósendur Sjálfstæðisflokksins hafi séð fyrir að flokkurinn mundi taka þetta kosningaloforð upp á sína arma.

Mér finnst þetta óábyrg meðferð á fjármunum. Mér finnst að þessir 80 milljarðar geti nýst íslenskum heimilum betur og ég minni á að ef ný lög um fjárreiður ríkisins væru komin til framkvæmda mættum við að öllum líkindum ekki fara í þessa aðgerð. Þá þyrftum við að verja þessum peningum í að greiða niður skuldir ríkisins.