143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég vil byrja á að minna á að þetta er hluti af stærri aðgerð ríkisstjórnarinnar til að koma skuldsettum heimilum til aðstoðar. Hitt málið, séreignarsparnaðurinn, er á dagskrá síðar í dag. Ég fagna því sérstaklega að við sjáum fyrir endann á þessu máli nú innan við ári frá því að ríkisstjórnin var mynduð. Ég þakka þinginu fyrir snör viðbrögð.

Auðvitað var við því að búast að tekist yrði á um útfærsluna. Í grófum dráttum geta menn farið sértækar leiðir, það tók allt síðasta kjörtímabil og skildi eftir mörg opin sár, eða menn geta farið almenna leið. Það er sú leið sem hér er farin.

Kemur hún fleirum til góða sem eru efnameiri en fyrri aðgerðir? Svarið er nei. 110%-leiðin kom miklu betur út fyrir efnameira fólk (Gripið fram í.) en sú aðgerð sem við erum að leiða (Gripið fram í.) í lög hér. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Sú leið sem við erum að leiða í lög með þessum aðgerðum kemur til framkvæmda án þess að ríkissjóður þurfi að skuldsetja sig vegna þess að ríkissjóður er rekinn með afgangi þrátt (Forseti hringir.) fyrir þessar miklu aðgerðir og hún hefur efnahagsleg áhrif (Forseti hringir.) sem eru jákvæð. Þetta er í aðra röndina efnahagsleg aðgerð. Og það er full ástæða til þess að fagna því sérstaklega hér við 2. umr. þessa máls hvernig þinginu hefur tekist upp (Forseti hringir.) við að vinna málinu framgang.