143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ummæli hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra um þessa atkvæðagreiðslu bera þess merki að hvorugur þeirra hefur hirt mikið um að taka þátt í umræðum um þetta mál í þinginu. Það er misskilningur hjá hæstv. forsætisráðherra að við í stjórnarandstöðunni höfum staðið gegn málinu og reynt að sá tortryggni. Við höfum hins vegar bent á augljósa ágalla þess sem eru þeir að nú er verið að ráðstafa opinberu fé án tillits til þess hvort fólk hafi orðið fyrir tjóni eða ekki. Það er grundvallarágalli á þessu máli sem veldur því að ekki er hægt að styðja það.

Hæstv. fjármálaráðherra virðist enn þá halda að þetta sé jákvæð efnahagsaðgerð þótt fyrir liggi frá Seðlabankanum að aðstæður í efnahagslífinu eru með þeim hætti að hækka þarf vexti til að vega á móti þessari aðgerð. Hún mun valda veikara gengi, hún mun valda meiri verðbólgu og hún mun valda minni fjárfestingu. Hún mun ekki hafa góð áhrif. Og eina leiðin til að komast hjá því er að ríkisstjórnin annaðhvort skeri niður eða hækki skatta. Það er þess vegna sem ekki er hægt að styðja þetta mál.