143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:14]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að koma hér upp aftur til þess að leiðrétta það sem hefur komið fram um að ef komið verður til móts við heimilin og þeim hjálpað að lækka skuldir sínar, sem hafa stökkbreyst mjög mikið, verði hér efnahagsleg ofþensla og hækka þurfi vexti upp úr öllu valdi og verðbólga geysist af stað. Þetta er alrangt.

Við erum að tala um 20 milljarða á ári í aukið veðrými á þessum eignum í fjögur ár. Það eru rúm 3% af fjárlögum. Það trúir því enginn að það muni valda ofþenslu. Svo er talað um auðsáhrif. Þau eru í mesta lagi viðbót upp á 1 milljarð í einkaneyslu á ári sem eru 1 þús. milljónir á ári. Trúir því einhver að það þurfi að fara að stórhækka vexti á Íslandi út af þessu? Það held ég ekki. (Gripið fram í: … Seðlabankinn.)