143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Eru það illkvittin stjórnmál að spyrja hvort það sé rétt hjá Seðlabankanum að þessi aðgerð muni hækka lán heimilanna um 22 milljarða? Eru það illkvittin stjórnmál að vísa í greinargerð með frumvarpinu þar sem segir að fullkomlega óljóst sé hver kostnaður Íbúðalánasjóðs verður af þessum aðgerðum? Síðan er það dregið fram í nefndaráliti meiri hlutans að hann geti verið á bilinu 5,5 til 25 milljarðar. Ekkert af þessu rúmast innan bankaskattsins.

Ef það eru illkvittin stjórnmál að spyrja spurninga um það hvaða áhrif þetta muni hafa á komandi kynslóðir, og að gagnrýna það að það verði fátækasta fólkið í landinu, þeir sem eiga lífsafkomu sína undir ríkinu og velferðarkerfinu, sem greiði þennan kostnað, ja, þá veit ég ekki hvar við erum stödd, virðulegi forseti.

Það eina sem hægt er að segja er að í ummælum (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra kristallast þau hrokastjórnmál sem hann ástundar og er að innleiða á Alþingi, (Forseti hringir.) þar sem hann leiðir hjá sér alla umræðu, svarar engum spurningum, (Forseti hringir.) og ætlar síðan að þagga niður í okkur hinum.(Forseti hringir.) Þetta er ekki boðlegt, virðulegi forseti, hér er of mikið í húfi.

(Forseti (EKG): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk.)