143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:18]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins grípa hér inn í og koma með atkvæðaskýringu. Ég minni þingmenn á umsögn frá meiri hluta fjárlaganefndar sem fylgir nefndaráliti meiri hlutans. Fjárlaganefnd var falið að skila umsögn til nefndarinnar.

Þar kom fram að fjárlaganefnd hefði fengið til sín marga gesti sem töldu allir mjög jákvætt að aðgerðirnar væru að fullu fjármagnaðar og hefðu því ekki neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs.

Seðlabankinn lagði mat á heildaráhrif aðgerðanna á innlenda eftirspurn, hagvöxt og framleiðsluspennu. Það var mat þeirra fulltrúa Seðlabankans sem komu fyrir fjárlaganefnd, sem þetta álit byggir á, að bankinn teldi þjóðhagsleg áhrif aðgerðanna hlutlaus. Það er ekkert öðruvísi, virðulegi forseti. Þess vegna er afar undarlegt að sjá þingmenn vinstri flokkanna berjast um á hæl og hnakka og halda fram ósannindum í þessu máli. Þeir sögðu á sínum tíma að lengra yrði ekki haldið. (Forseti hringir.) Rökin vantar í þessar atkvæðaskýringar og umræðuna alla hjá þessum þingmönnum (Forseti hringir.) vegna þess að þetta stendur hér. Það er (Forseti hringir.) eitthvað annað sem liggur að baki, t.d. getuleysi á síðasta kjörtímabili.