143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:25]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér er stórlega misboðið að þurfa að sitja undir þessum umræðum hér. Það veldur mér virkilegum vonbrigðum, eins og ég segi. Ég hef starfað lengi og vel með fólki sem skipar hér stjórnarandstöðuna, átt með því ágætissamstarf og skil ekki þá breytingu sem hefur orðið á því ágæta fólki eftir að ég kom inn á þennan stað.

Menn geta talað hér um hroka en það er alltaf hroki ef það kemur úr öðrum herbúðum en þeirra eigin. Mér finnst ég hafa orðið vitni að miklum hroka hjá mörgum hér undanfarna daga. Og ég hef alveg hlustað.

Mér finnst líka gæta lítillar sanngirni þegar menn hrópa hér illilega út af einu frammíkalli en þegar allur salurinn öskrar eru það ekki frammíköll. Það á ekki að gagnrýna, það er ekki hroki, það er ekki ósanngirni.

Mér finnst að við þurfum öll að taka okkur á hér og ég frábið mér það hvernig látið er ef forsætisráðherra segir einhver orð. (Gripið fram í.) Þá er það eitthvað óskaplegt en þið megið hafa orðræður um allt mögulegt og kalla okkur öllum illum nöfnum. (Gripið fram í: Rétt.) (Gripið fram í: Heyr, heyr.)