143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:29]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að lýsa yfir miklum stuðningi við það mál sem við erum að fara að greiða atkvæði um. Það var vissulega dálítið sérstakt að fylgjast með því allt síðasta kjörtímabil þegar reynt var að leggja aukabyrðar á heimilin í landinu til að flytja til fjármálafyrirtækjanna. Svokölluð vinstri stjórn gerði það ítrekað og reyndi að koma því í gegnum sali Alþingis.

Svo kemur svokölluð hægri stjórn, eins og margir stjórnarandstæðingar kalla hana, og leggur það til að flytja fjármagn frá fjármálafyrirtækjum af skynsemi til heimilanna í landinu. Er þetta ekki orðið dálítið snúið? Er það ekki rétt sem hv. þingmaður Suðurkjördæmis, Páll Valur, sagði áðan, er þetta ekki bara vegna þess að menn gátu ekki gert þetta á síðasta kjörtímabili? (Gripið fram í: Páll Jóhann.) Páll Jóhann Pálsson. Ég lýsi yfir miklum stuðningi við þetta mál og það er dálítið sérstakt að horfa á svokallaða vinstri menn hafna því að (Forseti hringir.) flytja fjármagn frá fjármálafyrirtækjum af skynsemi til heimilanna í landinu. (Gripið fram í: … ekki skynsemi.)