143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér þakkarvert að hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir skuli taka upp málstað lítilmagnans í umræðunni og að hv. þm. Höskuldur Þórhallsson reyni að breiða yfir öll gömlu kosningaloforðin sem voru orsökin fyrir hruninu.

Ég ætla að undirstrika sérstaklega að ég hef ekki þá lífssýn að tala um þau heimili sem ekki fá neinar úrbætur með þessu frumvarpi sem jaðartilfelli í samfélaginu, eins og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra gerði. (Gripið fram í.) Orðið jaðartilfelli var notað og ég ætla bara að — (Gripið fram í.) og það er verið að tala hér um kannski 30–40 þús. heimila landsins. Þetta eru heimili sem eiga ekki skuldir og sumt fólkið býr í leiguhúsnæði.

Við erum að segja að of há upphæð fer til annarra en þurfa á því að halda í þessari aðgerð og þess vegna erum við á móti þessu. (Forseti hringir.) Við fögnum því að stór hópur fær góða úrlausn (Forseti hringir.) en peningunum er vitlaust skipt.