143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:34]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeirri breytingartillögu sem greidd eru atkvæði um legg ég til að leiðréttingin verði látin ná til lokaðra leigufélaga og húsnæðissamvinnufélaga með sama hætti og til þeirra sem eru í eigin húsnæði. Engin efnisleg rök hafa verið færð fram fyrir því að undanskilja þetta fólk.

Í tilviki leigufélaganna geta lokuð leigufélög, Félagsstofnun stúdenta, hússjóður Öryrkjabandalagsins, lækkað leigu strax ef við lækkum verðtryggðar skuldir þeirra félaga. Þau geta ekki greitt út arð, peningarnir fara ekkert annað en til fólksins sjálfs. Alveg eins og í tilviki búseturéttarhafa er fólk með sérgreindar skuldir sem það þarf að greiða af og lækkunin nýtist þeim á nákvæmlega sama hátt og einstaklingum í eigin húsnæði. Engin efnisrök hafa verið færð fram fyrir þessari mismunun af hálfu ríkisstjórnarinnar og það er óásættanlegt að mismuna fólki svona í fullkomlega sambærilegri stöðu. Ég efast um að það standist jafnræðisreglu stjórnarskrár (Forseti hringir.) að fara fram með þessa mismunun á þann hátt sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir.